148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[16:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram með sértekjurnar. Ég ætla að vera ósammála þingmanninum þegar hann talar um að það sé sama hvort þetta heiti nefskattur eða sértekjur. Það er nefnilega ekki það sama vegna þess að allir skattskyldir borga nefskatt, en það eru ekki allir skattskyldir sem borga sértekjur, þ.e. sértekjur eru borgaðar þar sem maður sækir sér einhverja tiltekna þjónustu, svo það sé sagt.

Varðandi nýsköpun og annað slíkt. Nei, ég myndi ætla það að stofnanir sem heyra undir ráðuneytið geri grein fyrir því í hvað þau hyggjast fara og gera á hverju ári. Þau eiga núna að skila inn þriggja ára áætlun til ráðuneyta sinna og þar á auðvitað að koma fram plan um það hvað fram undan er. Ég myndi halda að þar ættu ráðuneytin auðvitað að taka tillit til þeirra að einhverju leyti og ég sé ekki að það sé stefna almennt að draga úr nýsköpun eða rannsóknum. Ég held að það sé frekar það sem flestir vilja leggja áherslu á, bæði núverandi ríkisstjórn og örugglega þær sem áður hafa setið og koma til með að sitja vegna þess að það er það sem við þurfum að gera til þess að komast af og áfram í samfélagi sem tekur stöðugum breytingum.

Ég tek alveg undir það eins og hér hefur komið fram að við hefðum eflaust getað gert betur. Ég skil hins vegar að það sé gott að afgreiða þetta mál fyrir komandi fjárlagagerð af því að fjárlögin verða sett fram með aðeins öðrum hætti en núna af því að nú tekur fjárlagagerðin auðvitað mið af öllum þessum mörkuðum tekjum eins og þær liggja fyrir, bara það eitt og sér. Þetta er auðvitað praktískt mál, ekki endilega eitthvað annað. Við eigum eftir að halda áfram að ræða þetta vegna þess eins og hér hefur komið fram þá er málið bara hálfnað.