148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda.

424. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef einhver vafi væri í mínum huga um að þessi réttindi séu tryggð myndi ég ekki mæla fyrir þessu nefndaráliti. Það er alger trú mín að þessi réttur sé fyllilega tryggður. Það er rétt, sem hv. þingmaður nefnir, að þetta var þó nokkuð mikið rætt í nefndinni. Reyndar öðlaðist ég áhuga á þessu máli þegar ég var ekki á þingi, þ.e. á milliþingárum mínum, þegar ég var að fylgjast með Alþingi. Ég tók eftir þessu máli, eftir þessari fyrirætlan að fella brott lögin, og að Lífeyrissjóður bænda hefði þessar áhyggjur. Málflutningur lífeyrissjóðsins var sá að þessi grein, 6. gr. í lögunum, þyrfti að vera til staðar til að samþykktir sjóðsins gætu gengið upp, þ.e. að samþykktir sjóðsins þyrftu að hafa lagastoð. Það var sá málflutningur sem kom fyrst fyrir mín augu. Því kom upp ein hugmynd, m.a. frá Bændasamtökunum, um að setja bráðabirgðaákvæði í lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda sem tæki fyrir þessar áhyggjur svo að lagastoðin væri enn til staðar og vandinn þar með væntanlega leystur. Við ræddum þetta allmikið í nefndinni og komumst að þeirri niðurstöðu að slíkur lagatexti hefði einfaldlega ekkert gildi því að áunnin réttindi, samkvæmt þeim lögum sem þegar hafa verið sett og samkvæmt samþykktum sjóðsins, væru réttindi sem ekki væri hægt að taka burt. Það er ekki bara þannig að lífeyrissjóðurinn megi greiða út þessi réttindi samkvæmt samþykktum sínum heldur ber honum beinlínis skylda til þess.

Þetta er lagalegur ágreiningur sem hefur verið milli Lífeyrissjóðs bænda og allra annarra, leyfi ég mér að segja, sem hafa sagt sína skoðun á því yfir höfuð, allra sem ég veit um. Niðurstaða nefndarinnar er einfaldlega sú að þetta sé ekki áhyggjuefni, að lífeyrissjóðurinn verði að veita þessi áunnu réttindi. Í seinna andsvari kem ég líka inn á viðbrögð fjármála- og efnahagsráðuneytisins við því atriði.