148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[20:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka ráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp hér fram en líka að spyrja aðeins. Það er sagt hér, í greinargerð á bls. 4, með leyfi hæstv. forseta:

„Frumvarpinu er ætlað að hafa jákvæð áhrif í LDC-ríkjunum. Vegna þess hve takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um hlutdeild kynjanna í útflutningsatvinnugreinum í ríkjunum er erfitt að áætla um áhrif ávinningsins á kynin.“

Hér er meðal annars talað um útflutning frá þessum ágætu löndum á blómum og fleiru. Mig langar að vita hvort fyrir hafi legið, þegar frumvarpið var samið, einhverjar upplýsingar um stöðu þeirra sem vinna við þessa atvinnuvegi í þessum löndum. Mig minnir að ég hafi séð að Danir hafi til dæmis mjög nýlega bannað blómainnflutning frá tilteknum Afríkuríkjum þar sem þeir töldu sig hafa sannanir fyrir því að níðst væri á þeim sem ynnu við blómaræktun og blómaskurð, aðallega konum. Þess vegna langar mig að vita hvort hæstv. ráðherra hefur einhverjar upplýsingar um það eða hvort þetta hefur verið rannsakað með einhverjum hætti.

Og kannski í framhaldi af því hvort möguleiki eða vilji sé til þess að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að aðstæður þeirra sem vinna við þennan atvinnurekstur í þessum löndum verði bættar á einhvern hátt eða tryggt að ekki sé níðst á þessu fólki og að réttindi þeirra séu með þeim hætti að við getum sætt okkur við. Mér þætti mjög vænt um að fá svör við þessu.