148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[20:22]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Á heildina litið tel ég þetta jákvætt mál. Það eru þó ýmis álitaefni sem fróðlegt væri að heyra álit hæstv. ráðherra á. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson nefndi nokkur þeirra áðan, en það sem ég er að velta fyrir mér í þessu samhengi er býsna víðfemt. Ég hefði áhuga á því að heyra þótt ekki væri nema álit ráðherrans á þessum álitaefnum ef ráðherrann er reiðubúinn til þess. Ég geri mér grein fyrir því að sá ráðherra sem er til svara fyrir málið er aðeins starfandi fjármálaráðherra. Í þeim tilvikum þar sem hæstv. ráðherra hefur ekki svör á reiðum höndum væri þó áhugavert að heyra mat eða álit hæstv. ráðherra á álitaefninu.

Fyrst að því sem ég tel jákvætt og mikilvægt við þetta mál. Vandi fátækra ríkja, þróunarríkja stafar oft og tíðum og oftast — sumir myndu segja alltaf af því að þar er ekki til staðar starfhæfur, eðlilegur markaður, þ.e. markaðurinn virkar ekki. Menn geta ekki selt vörur sínar og hafa þar af leiðandi ekki vinnu, hafa ekki tekjur o.s.frv. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Í sumum tilvikum hefur viðskiptaleg einangrun ríkja, ef svo má segja, haldið aftur af möguleikum þeirra á að þróast og byggja sig upp. Ísland er reyndar, vel að merkja, mjög opið land í viðskiptum við umheiminn í samanburði við það sem tíðkast víða annars staðar, m.a. í tollabandalaginu Evrópusambandinu. Það má ekki gleyma því að Evrópusambandið er tollabandalag. Það snýst um tollamúrana sem liggja í kringum bandalagið. Ísland stundar mun víðtækari — eða leyfir, skulum við segja, frjálsari viðskipti en Evrópusambandið og ég held ég megi segja flest lönd í heiminum.

Það er mikilvægt fyrir lönd sem eru að ná sér á strik að hafa tækifæri til þess að selja vörur sínar, nýta auðlindir sínar og nýta starfskrafta þjóðanna sem löndin byggja. Það gagnast hins vegar takmarkað nema til staðar sé regluverk, hefð í sumum tilvikum, menning sem gerir almenningi í þessum löndum kleift að njóta ávinningsins af vinnunni, af verðmætasköpuninni. Það eru reyndar dæmi um að vestræn ríki hafi í tilburðum sínum við þróunaraðstoð jafnvel skemmt fyrir mörkuðum í þróunarlöndum. Dæmi um slíkt eru þar sem menn hafa verið að hefja framleiðslu, t.d. matvæla fyrir heimamarkað og byggja upp landbúnað, en þróaðri ríki hafa svo skellt inn á markaðinn afgangsbirgðum, ef svo má segja, úr hluta af umframframleiðslu sinni og þar með jú, leyst vanda einhverra til skamms tíma en um leið rústað markaðnum og möguleikum, þjóðarinnar eða þeirra sem voru að byggja upp atvinnuveginn innan ríkisins, á því að halda áfram að byggja hann upp og verða að sjálfbærri atvinnugrein, svo ég noti nú hið vinsæla orð. Grein sem gæti staðið undir nauðsynlegri matvælaframleiðslu og uppbyggingu verðmætasköpunar í landinu.

Þegar hins vegar er um að ræða útflutning, og hér erum við að ræða það að Ísland og önnur ríki taki í auknum mæli við vörum frá þessum löndum án þess að leggja á þær sérstaka tolla, þarf líka að huga að ástandinu innan upprunalandanna en með öðrum hætti, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kom inn á áðan. Þá kem ég inn á það sem ég hef sérstakan áhuga á að heyra álit ráðherrans á: Er ekki hætta á því að ef í þessum ríkjum er verið að nota almenning til þess að framleiða verðmæti við kröpp kjör jafnvel við hættulegar aðstæður, af hálfu annaðhvort spilltra stjórnvalda, jafnvel glæpagengja í ákveðnum tilvikum eða erlendra fyrirtækja sem koma inn í þessi lönd og á vissan hátt nýta sér fátæktina, að við séum að ýta undir slíka starfsemi ef við lítum ekki til þessara þátta? Ríki þurfa ekki einu sinni vera fátæk eða standa veikt til þess að geta lent í þessari hættu og farið illa út úr henni.

Ég nefni Argentínu sem dæmi. Argentína var snemma á 20. öld orðið mjög þróað ríki og ríkt land með gríðarlega verðmætasköpun á ólíkum sviðum, ekki hvað síst í matvælaframleiðslu, en líka iðnríki. Land sem flutti mjög mikið út og átti viðskipti við lönd um allan heim. Það sem kom Argentínu í koll var að þeir seldu frá sér auðlindir landsins, framleiðsluna til erlendra aðila. Þegar landið lenti svo í kröggum rann allur arðurinn af því út úr landinu sem menn voru að fást við í Argentínu. Landið gat ekki nýtt framleiðslugetuna, gat ekki nýtt auðlindirnar til þess að takast á við efnahagslegar þrengingar vegna þess að afraksturinn rann í svo ríkum mæli burt úr landinu.

Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort við þurfum ekki samhliða svona aðgerðum að reyna að minnsta kosti með einhverjum hætti að hlutast til um að þessir hvatar séu til þess fallnir að nýtast við það sem þeim er ætlað að nýtast við, þ.e. uppbyggingu verðmætasköpunar í þeim ríkjum sem um ræðir þannig að þessi fátæku lönd geti notið þess sem Ísland naut á sínum tíma. Eftir að hafa verið fátækt ríki gat Ísland varið hagsmuni sína þegar það öðlaðist raunverulegt sjálfstæði, eins og við ræddum aðeins í fyrra málinu, virðulegur forseti. Það gat nýtt auðlindir sínar í þágu samfélagsins og eins verðmætasköpun fólksins til þess að byggja upp samfélagið í viðkomandi landi. Það er lítið gagn í því að hleypa inn vörum frá einhverju landi, segjum frá Haítí, tollfrjálst ef allur ágóðinn rennur til fyrirtækja sem eru hugsanlega að nýta sér neyð landsins og ganga á lagið og festa jafnvel vandann í sessi. Með öðrum orðum að draga úr möguleikunum á því að landið nái að byggja sig upp, þvert á það sem þessu frumvarpi, af greinargerð að dæma, er ætlað að ná fram.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er mjög erfitt mál við að eiga. Það er mjög flókið og stórt verkefni að ætla að byggja upp lönd sem eru lent í neikvæðri keðjuverkun fátæktar. Stór hluti af því er sú staðreynd að mörgum fátækustu ríkjum heims, kannski flestum, hugsa ég að óhætt sé að segja, fátækustu ríkjum heims er stjórnað af stjórnvöldum sem ekki eru endilega alltaf að gæta heildarhagsmuna eða gæta þess að sá ávinningur sem næst nýtist við uppbyggingu samfélagsins alls. Ég ætla reyndar að hafa þann varann á, virðulegur forseti, og segja að erfitt sé að draga mörkin hvar slíkt er ríkjandi en ég held að við getum þó öll verið sammála um að í mjög stórum hluta hinna fátækustu ríkja, liggi vandinn ekki hvað síst í stjórnarfarinu.

Við á Íslandi vorum heppin, eftir að hafa verið fátækasta ríki Evrópu, eins og stundum er sagt, fyrir ekkert svo löngu síðan. Við vorum svo heppin að búa þó að ákveðnum samfélagslegum innviðum. Tiltekinni menningu, tiltekinni hefð, lýðræðishefð þar á meðal, menntahefð sem gerði okkur kleift að nýta til fulls, eiginlega strax frá upphafi, þau tækifæri sem fullveldið veitti okkur. Eins og ég gat um áðan nýttum við þau tækifæri til þess í raun að gera sem mest úr því sem við áttum sameiginlega, þeim tækifærum sem við áttum, framleiðslugetunni í auðlindunum og láta þessa verðmætasköpun að langmestu leyti nýtast við uppbyggingu samfélagsins. Enda hefur sú uppbygging verið hreint með ólíkindum og fá dæmi eru um jafn hraða efnahagslega uppbyggingu nokkurs lands, held ég mér sé óhætt að segja. Hér eru náttúrulegar aðstæður erfiðar, náttúrufar er erfitt viðureignar. Landið er tiltölulega stórt og erfitt miðað við fólksfjölda. Við erum landfræðilega einangruð en innviðirnir sem voru til staðar og þekkingin sem hér var, en kannski helst af öllu, hefðin fyrir því að gera hlutina lýðræðislega og nýta læsið, nýta menntunina, nýttist okkur til að vinna okkur upp.

Því miður vantar mikið upp á þær forsendur í mörgum þeirra landa sem fjallað er um í þessu frumvarpi en maður veltir fyrir sér, samhliða umræðu um frumvarpið, af því að þetta snýst jú um hvata, hvort við getum með einhverjum hætti í ríkari mæli en hér er mælt fyrir um, skapað hvata til þess að sú þróun sem við höfum upplifað hér á Íslandi á síðustu öld, geti náðst í þessum 50 löndum, eða hvað þau eru nú mörg sem heyra undir þá skilgreiningu sem lögð er til grundvallar hjá vanþróuðustu ríkjunum. Getur verið að þá þurfi að setja einhver skilyrði um það með hvaða hætti þær vörur sem njóta þessara fríðinda sem verið er að veita, búi við einhver skilyrði? Eða réttara sagt, að fríðindin séu skilyrt?

Það er auðvitað ekki hægt að gera kröfu um að við kaupum einungis vörur sem bóndinn hefur framleitt sjálfur og pakkað og sent. Auðvitað þurfa fyrirtæki og fólk með reynslu og þekkingu á framleiðslu og viðskiptum að koma að til þess að þetta geti orðið raunhæft og hagkvæmt fyrir þessi lönd að flytja þetta út. Ég velti því fyrir mér hvernig best sé hægt að ná markmiði þessa frumvarps: Eru einhverjar leiðir til þess að í því felist hvati til þess að þær vörur sem njóta fríðindanna, framleiðsla þeirra sé til þess fallin að stuðla að því sem þessu máli er raunverulega ætlað að ná, þ.e. uppbyggingu í landinu, í fátæka landinu en ekki stuðla að því að hugsanlega stór fyrirtæki frá öðrum löndum jafnvel glæpahópar nýti sér þetta ákvæði til þess að láta framleiða fyrir sig vörur, jafnvel með þrælkun, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson nefndi áðan, og njóti svo sérstakra fríðinda við útflutning á vörunni? Sér hæstv. ráðherra einhverjar leiðir til þess?