148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[20:41]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sannfærður um að einhver besta leið til að hafa áhrif á fátæk lönd, áhrif á stjórnarfar í fátækum löndum, sé einmitt að eiga viðskipti við þau. Þar með opnast samtalið, þar með byrjum við sjálf að fylgjast með landinu því að við eigum viðskipti við það sem við áttum ekki áður. Land sem við þekktum ekki áður. Í sjálfu sér ætti það að vera einhvers konar innbyggt eftirlitskerfi hjá okkur að þessu leyti.

Það sem ég hef hins vegar miklu meiri áhyggjur af er að þessi lönd, mörg hver, glíma við mikið óréttlæti af hendi iðnríkjanna sem flytja vörur inn til þessara landa, sérstaklega niðurgreiddar landbúnaðarafurðir. Þessi innflutningur í skjóli skattgreiðenda í Evrópu, því þetta eru nú fyrst og fremst Evrópusambandsríkin, Frakkland alveg sérstaklega, hefur í nokkrum tilfellum rústað landbúnaði þessara landa. Og ég hygg að við ættum að taka þetta samtal á alþjóðavettvangi, hvernig við í krafti auðs okkar niðurgreiðum afurðir og vörur til þessara fátækustu ríkja og eyðileggjum þar með möguleika þeirra á að framleiða vörur fyrir innanlandsmarkað og framleiða vörur til útflutnings. Er hv. þingmaður sammála mér í þessu?