148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:23]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar. Þingmaðurinn nefndi Síerra Leóne og þar eru einhver fyrirtæki og aðilar héðan með hjálparstarfsemi. Það heyrir kannski ekki undir bein viðskipti en samt sem áður erum við þar að rétta hjálparhönd.

Ég hjó líka eftir því í ræðu áðan að við Íslendingar yrðum að vera á varðbergi sjálf í sambandi við okkar matvælaframleiðslu eins og með landbúnað, að passa upp á að vernda landbúnaðarafurðir, eins og við höfum gert. Ef við myndum opna á frjáls viðskipti með þær gæti verið hætta á að við fengjum inn í landið ódýrar vörur út í matvæli sem væru ekki góð til manneldis. Sér þingmaðurinn einhverja hættu á slíku? Þurfum við að passa okkur, alveg eins og önnur af þessum vanþróuðu löndum, að falla ekki í gömlu gryfjuna aftur?