148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir prýðisgóða ræðu. Ánægjulegt að heyra afstöðu hans gagnvart viðskiptum og þeim mikilvæga þætti sem þau spila í mögulegri uppbyggingu vanþróaðra ríkja í efnahagslegu tilliti eins og þar er um að ræða.

Hv. þingmaður á það til að taka annan vinkil en akkúrat er til umræðu hverju sinni, oft með mjög áhugaverðum hætti. Ég hlustaði á hann áðan þegar hann talaði um að hann teldi tolla almennt af hinu slæma. Í rauninni í hvaða formi sem þeir væru nema hugsanlega sem, ef ég skildi rétt, refsiaðgerð vegna einhverra væntanlega tímabundinna aðgerða, hvað sem kynni að orsaka.

En hann kom líka inn á skatta, að hann teldi að tekjuskattur og virðisaukaskattur báða siðferðislega réttlætanlega og skildi nálgunina sem þar væri beitt. Þá kom mér í hug að spyrja hv. þingmann hver afstaða hans sé gagnvart erfðafjárskatti. Sem á nú víða við en ekki alls staðar. En úr því að hv. þingmaður fór inn á að ræða siðferðislega afstöðu til skatta er ég forvitinn að fá að heyra afstöðu hans til erfðafjárskatts.