148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi komið fyrirvörum mínum ágætlega á framfæri, ég get lýst annars vegar draumaheimi mínum og hvernig mér finnst að hlutirnir eigi að vera í prinsippinu en ég fæddist nú ekki í þennan heim fyrr en 1980 þannig að ég fékk ekki að ráða þessu öllu saman. Við sitjum uppi með aðstæður sem eru mér ekkert endilega að skapi. Við það að breyta sér í lagi stórum og flóknum kerfum geta alltaf leynst einhverjir hlutir sem flækja málin. Annars væri auðvelt að leggja fram ansi mikið af alls konar þingmálum. Svo gerist það oft þegar maður rannsakar þingmál að hlutirnir eru aðeins flóknari en maður hélt þótt prinsippið fari ekki neitt. Þótt maður sé alveg sömu skoðunar þá rekst maður á að það er flóknara að gera hlutina en maður hélt og getur haft hliðarverkanir sem maður vill ekki.

Að verndartollum og spurningu þingmannsins: Í fljótu bragði veit ég ekki hvort Ísland gæti einfaldlega afnumið alla tolla og þar á meðal á matvæli og það væri allt í góðu. Ég efast um að það yrði það einfalt. Það væri mjög sérstakt, skrýtið og einstakt ef það væri einfalt. En til þess að fara með vangaveltuna aðeins lengra þá finnst mér mikilvægt að við hugsum um grunnmarkmiðið. Ef markmiðið er að tryggja matvælaöryggi á Íslandi þurfum við bara að passa að það sé fjármagnað nógu vel. Auðvitað felst í því kostnaður, alveg eins og í tollunum felst ákveðinn kostnaður fyrir neytendur og hagkerfið í víðari skilningi. Ég hef ekki séð nein rök fyrir því að tollar séu eitthvað betri leið en að ausa einfaldlega peningum úr ríkissjóði í það vandamál, væntanlega með einhverju öðru kerfi en er núna. Gætum rætt það við betra tækifæri. En ég viðurkenni alveg að þetta er alveg eins og með landamæri, þótt minn draumaheimur sé landamæralaus átta ég mig á því að vegna þess að þau eru komin og búin að vera í langan tíma er meira en að nefna það að losna við þau. (Forseti hringir.)

En hér er um frumvarp að ræða sem (Forseti hringir.)virðist vera samhugur um að sé raunhæft. Þess vegna fagna ég því svo mjög. Þetta eru heil 47 ríki. (Forseti hringir.) Ég vona að það verði einhvern tíma samhugur um að fjölga þeim enn þá meira.