148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil nú taka tvennt fram áður en ég sný mér að spurningunni. Annars vegar ítreka það sem ég hef nefnt áður að ég er hlynntur þessu frumvarpi af þeim sérstöku ástæðum sem ég rakti hér í ræðu. Þess vegna er ég hlynntur þessari einhliða niðurfellingu tolla. Hitt er að ég er mjög áhugasamur um Pírata. Í tilraunum mínum til að átta mig á þessari hreyfingu hef ég, til að einfalda málið, reynt að skipta þeim í tvo meginflokka, annars vegar svona vinstri anarkista-Pírata og hins vegar það sem kalla mætti frjálslynda eða jafnvel frjálshyggju-Pírata. Í þessari flokkun set ég hv. þingmann í seinni flokkinn.

Ég verð að viðurkenna að ég er sammála honum um margt. Eitt og annað, t.d. ýmislegt sem hann hefur bent á í tengslum við umræðu um málfrelsi. Ég kann mjög vel að meta þá tilhneigingu hv. þingmanns að kynna sér mál, setja sig inn í þau og átta sig á þeim áður en hann kemst að niðurstöðu. En mér brá mjög í brún að heyra hv. þingmann lýsa því að hann væri hlynntur alhliða einhliða niðurfellingu tolla. Hvað værum við að gera með því? Við værum í rauninni að gefa eftir stöðu landsins í mögulegum samningaviðræðum við önnur ríki. Ef við erum einhliða búin að gefa eftir tollana, hvers vegna ættu þá önnur ríki að gera slíkt hið sama?

Þá veltir maður fyrir sér, og þetta er spurningin: Ef hv. þingmaður er tilbúinn að gefa eftir tolla gagnvart ríkjum sem framleiða vörur við allt önnur skilyrði en við teldum boðleg hér á Íslandi, væri hann þá líka tilbúinn til að opna íslenska vinnumarkaðinn algerlega? Þannig að hver sem byggi við kröpp kjör í erlendu ríki gæti komið til Íslands og undirboðið íslenska bændur eða verkamenn eða aðra? Þegið miklu lægri laun en við gerum kröfu um hér á Íslandi?