148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði að þetta væri einfalt mál og að hluta til er það alveg rétt. En það eru mjög flóknar hliðarverkanir sem mig langar kannski aðeins að velta upp með hv. þingmanni. Og aðeins meira í ræðu á eftir.

Það fyrsta sem ég hef áhyggjur af er hvort þetta sé möguleg fátæktargildra, þ.e. hvort það sé ákveðinn hvati til þess að vera áfram LDC-land til þess að missa ekki þessa fríu tolla á góðan útflutning, hvernig á að tryggja það.

Tengt þeirri umræðu sem átti sé stað áðan við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson, um framtíðarsamfélagið þar sem þarf enga tolla, myndi ég vilja spyrja hv. þingmann: Þarf tolla ef matvælaöryggi er tryggt? Ef við erum í heimi þar sem matvælaöryggi er tryggt, hvar sem er í heiminum, þurfum við þá tolla?

Við getum kannski bætt við þetta orkuöryggi og húsnæðisöryggi, sérstaklega hér á norðlægum slóðum þar sem er kalt o.s.frv. Þegar allt kemur til alls þá sýnist mér tollar einmitt snúast rosalega mikið um stálflutning og ýmislegt svoleiðis. En hvað varðar neytandann sem slíkan og öryggið sem í því felst að eiga í sig og á — og þá möguleika, ef landið einangrast, að við munum ekki svelta. Þurfum við tolla ef matvælaöryggi er tryggt í landinu?