148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum á lokaspretti í umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur til næstu fimm ára. Umræður í þinginu hafa verið gagnlegar fyrir margra hluta sakir, bæði vegna þess að þær kalla fram lærdóm sem við þurfum að draga af vinnuferlinu en einnig vegna þess að í þeim kristallast gagnrýni stjórnarandstöðunnar sem er ýmist um of mikil útgjöld eða of lítil.

Töluvert hefur verið rætt um ójöfnuð og hvað við gætum gert til þess að draga úr ójöfnuði sem er of mikill í íslensku samfélagi. Samkvæmt skýrslu Credit Suisse sem birtir Gini-stuðul um eignaójöfnuð er hann minnstur á Íslandi af Norðurlöndunum. Því verður samt að halda til haga að gögn um eignaójöfnuð eru léleg, m.a. vegna þess að það vantar lífeyrisréttindi og hlutabréf eru þar á nafnvirði. En það segir sig sjálft að ef ójöfnuður verður of mikill mun það leiða til félagslegs óstöðugleika og hann er í eðli sínu ósanngjarn. Ekkert okkar velur sér foreldra eða aðstæður sem við fæðumst í. Það er því erfitt að rökstyðja að sumir hafi forskot frá upphafi en aðrir hlaupi upp í mót allt sitt líf. Þeir sem eru fylgjandi einstaklingsábyrgð, og margir hverjir sitja með mér í ríkisstjórn, ættu að vera sammála mér um það líkt og við félagshyggjufólk erum sammála um að í miklum ójöfnuði felist kerfisbundið óréttlæti sem þurfi að bregðast við. Hingað til höfum við ekki komist að samkomulagi um leiðir til að sætta þessi tvö sjónarmið. Það knýr á að brúa bilið því að of mikill ójöfnuður er vondur fyrir alla.

Í þessari ríkisfjármálaáætlun, sem við erum hér að klára umræðu um, er gríðarlega mikil útgjaldaaukning boðuð en jafnframt er stefnt að því að halda áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Áætlunin hefur verið gagnrýnd fyrir að vera of bjartsýn en nýjustu gögn sem við höfum og hagspár styðja við forsendur hennar. Mér þykir það ekki merkileg aðferðafræði að segja: Krónan hefur alltaf fallið þegar hún hefur verið svona sterk og því mun hún falla. Ör tímans er áfram. Það er grundvallarmunur á stöðu hagkerfisins núna og við síðasta gengishrun. Skuldastaða heimila, ríkissjóðs og þjóðarbúsins er allt önnur en við fyrri gengishrun. Fall krónunnar er ekki náttúrulögmál heldur lýsing á því sem gerðist við aðstæður liðinna tíma. Nú eru aðrar aðstæður.

Það er hægt að telja upp marga jákvæða punkta í þessari ríkisfjármálaáætlun. Það eru vissulega líka margir stórir óvissuþættir. Ég nefni fílinn í herberginu, ferðaþjónustuna og gengi krónunnar, launaþróun og verðþróun á húsnæði. Það er samt full ástæða til að gleðjast yfir því að vel árar og við getum loksins hafið endurbætur á innviðum landsins. Með kröftugri innspýtingu í hagkerfið verður viðspyrna í hagkerfinu þegar það aðlagast lægri hagvexti.

Á gildistímanum á að fjárfesta fyrir 338 milljarða kr. í innviðum landsins. Það er þegar hafið. Fyrsti áfangi nýja Landspítalans við Hringbraut er kominn í útboð. Áformað er að auka árleg útgjöld til heilbrigðismála um 40 milljarða til viðbótar við þá 20 milljarða sem voru með fyrstu fjárlögum ríkisstjórnarinnar. Við ætlum að endurreisa íslenska heilbrigðiskerfið en það hefur verið stærsta kosningamál síðastliðnar tvennar kosningar. Þá eru það umhverfismálin en við ætlum okkur metnaðarfulla hluti í loftslags- og umhverfismálum. Aldrei í sögunni hefur verið bætt við öðru eins í umhverfismálum. Það er stefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að uppfylla skuldbindingar í loftslagsmálum ásamt því að nýting landsins sé sjálfbær. Ísland hefur skuldbundið sig til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030 og stefnir að því að Ísland verði orðið kolefnishlutlaust árið 2040. Til að það geti náðst þarf að stíga stór skref í áttina að orkuskiptum í samgöngum og auðvitað ýmsu fleiru. Við þurfum líka að tala hér um stóraukna innspýtingu í menntamál og svo mörg önnur mál sem hér hafa verið rædd, í samgöngur og annað slíkt. Þetta skiptir allt máli.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að lengja mál mitt mikið lengur. Ég vil aftur þakka félögum mínum í fjárlaganefnd fyrir samvinnuna og auðvitað fólkinu sem tekið hefur til máls um ríkisfjármálaáætlun. Við Vinstri græn teljum hana vera stóra rammann utan um þá ótal góðu hluti sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar sér að framkvæma. Þetta er ekki lausn á öllum vanda samfélagsins en þetta er býsna góð byrjun.