148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:49]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ólíkt stjórnarflokkunum sem leggjast algerlega í duftið fyrir ráðherrunum sínum og gera engar breytingar á 5 þús. milljarða kr. fjármálaáætlun sinni leggur Samfylkingin hér fram tíu breytingartillögur. Þær tillögur tryggja nauðsynlega fjármuni til Landspítalans, skólanna, barnabóta, vaxtabóta, öryrkja og aldraðra svo að eitthvað sé nefnt. Breytingartillögur Samfylkingarinnar eru að fullu fjármagnaðar með því að breyta fyrirhuguðum skattaáformum ríkisstjórnarinnar en tillögur stjórnarflokkanna gagnast aðallega ríkum karlmönnum og bönkum.

Fyrr í vikunni var þessi ríkisstjórn tilbúin að færa kvótagreifum og skattakóngum um 3 milljarða með lækkuðum veiðileyfagjöldum. Ríkisstjórnin þurfti að bakka með það mál og því hljóta stjórnarþingmenn að geta samþykkt eitthvað af tillögum okkar sem renna til aukinnar velferðar. Ef ekki þarf þjóðin að spyrja sig þeirrar spurningar af hverju útgerðarmenn eigi stuðning ykkar allra en ekki aldraðir, öryrkjar eða barnafólk.