148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:51]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þessi áætlun er í samræmi við samþykkta ríkisfjármálastefnu. Hér birtist forgangsröðun mikillar uppbyggingar samfélagslegra innviða. Hér erum við að bæta verulega í útgjöld og fjárfestingar til heilbrigðis- og velferðarmála, menntamála og samgöngumála og fleiri sviða samfélagsins. Auðvitað má margt bæta í verklagi, greiningu og framsetningu. Í áliti meiri hluta er að finna ábendingar og einnig sameiginlegar ábendingar fjárlaganefndar og svigrúm er til að taka tillit til þess við næstu fjárlagagerð og endurmat áætlunar að ári. Áætlunin er útfærsla ríkisfjármála til framtíðar, sóknaráætlun, og að gefnum forsendum stenst áætlunin þær kröfur sem lög um opinber fjármál gera. Því leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að hún verði samþykkt óbreytt.