148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:05]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér göngum við til atkvæða um að setja svipaða upphæð í barnabætur og þingmenn Vinstri grænna hafa barist alla vikuna fyrir að færð yrði til kvótagreifa og skattakónga. Nú hafa stjórnarþingmenn tapað veiðileyfagjaldamálinu en svigrúmið upp á 3 milljarða hlýtur enn að vera fyrir hendi, ekki satt?

Í fjármálaáætluninni er ekki sett króna til viðbótar í barnabætur. Samfylkingin vill hins vegar styðja betur við barnafjölskyldur, enda er allt of dýrt að vera ungur á Íslandi í dag. Fyrir fimm mánuðum felldu þingmenn VG tillögur okkar um aukna fjármuni í barnabætur. Ég trúi því ekki að VG ætli að gera það aftur hér í dag. Erindi VG í stjórnmálum er ekki að fella tillögur um auknar barnabætur en mér sýnist að Vinstri græn hafi gerbreytt erindi sínu fyrir þrjá ráðherrastóla.