148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

kvikmyndalög.

465. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001, með síðari breytingum, frá allsherjar- og menntamálanefnd og vísa í nefndarálit á þskj. 1157. Ég ætla að fara yfir helstu atriði.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og fengið umsagnaraðila á sinn fund en umsagnir bárust frá Bandalagi íslenskra listamanna, Félagi íslenskra leikara, Kvikmyndamiðstöð Íslands og sameiginleg umsögn barst frá Félagi kvikmyndagerðarmanna, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Samtökum kvikmyndaleikstjóra.

Megintilefni frumvarpsins er að bregðast við ábendingum frá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, um að færa þurfi ákvæði kvikmyndalaga til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar um ríkisaðstoð og bann við mismunun á grundvelli þjóðernis. Þá eru hér sett ítarlegri skilyrði um að fjárstuðningur verði einungis veittur vegna íslenskra kvikmynda, kvikmynda sem eru á íslenskri tungu og hafa íslenska menningarlega eða samfélagslega skírskotun. Aðrar breytingar snúa að hlutverki kvikmyndaráðs og setu fulltrúa í ráðinu, verkaskiptingu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasjóðs, hámark skipunartíma forstöðumanns, heimild til að veita sýningarstyrki, að lögfesta hlutverk kvikmyndaráðgjafa og að heildarfjárhæð styrks verði ekki umfram þær viðmiðanir sem kveðið er á um í reglum.

Nefndin telur að fengnum umsögnum og fundum með umsagnaraðilum þörf á að bregðast við nokkrum athugasemdum umsagnaraðila. Ég ætla rétt aðeins að tæpa á þeim helstu. Nefndin ræddi sérstaklega við þá aðila sem eiga rétt á setu í kvikmyndaráði samkvæmt 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Nefndin er sammála um að Félag íslenskra leikara eigi rétt á að tilnefna fulltrúa í kvikmyndaráð og leggur til breytingu þess efnis.

Í sameiginlegri umsögn Félags kvikmyndagerðarmanna, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Samtaka kvikmyndaleikstjóra eru gerðar athugasemdir við afnám lögbundinnar samráðsskyldu við kvikmyndaráð. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var frumvarpið sett í samráðsferli og öllum gefið tækifæri á að senda inn umsögn. Nefndin bendir á að hér sé ekki verið að afnema umsagnarrétt kvikmyndaráðs en leggur jafnframt áherslu á að samráðsgáttin komi ekki í stað umfjöllunar í þingnefndum sem er mikilvægur þáttur í þinglegri meðferð þingmála og beinir nefndin því til ráðuneytis að öflugra samráð verði haft við hagsmunaaðila í framtíðinni þegar mál eru til vinnslu innan þess. Þá leggur nefndin áherslu á að í þeirri stefnumótunarvinnu sem fram undan er við mótun kvikmyndastefnu fari fram heildarendurskoðun kvikmyndalaga og að gætt verði að fullu samráði við hagsmunaaðila í því ferli.

Kvikmyndamiðstöð Íslands telur frumvarpið leiða til skörunar milli hlutverka Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasjóðs. Lagðar eru til breytingar í 3. gr. frumvarpsins þar sem 1. töluliður 3. gr. laganna, um að KMÍ skuli styrkja framleiðslu og dreifingu íslenskra kvikmynda, er tekinn út og í staðinn settur nýr töluliður sem kveður á um að KMÍ hafi umsjón með rekstri og starfsemi Kvikmyndasjóðs. Nefndin bendir á að markmið þessara breytinga sé að skýra verkaskiptingu á milli KMÍ og Kvikmyndasjóðs. Með breytingunni er verið að gæta þess að allar styrkveitingar frá KMÍ fari í gegnum Kvikmyndasjóð. Við úthlutun styrkja og framlaga skal gæta jafnræðis, hlutlægni, gagnsæis og samkeppnissjónarmiða og til viðbótar hinum lögbundnu styrkjum úr Kvikmyndasjóði þurfi sérstaka lagaheimild. Nefndin er því ósammála að ákveðin skörun verði á hlutverki KMÍ og Kvikmyndasjóðs með þeirri breytingu sem er lögð til í frumvarpinu.

Þá er að mati KMÍ mikilvægt vegna sérstaks eðlis kvikmyndastarfsemi að hafa skýrar línur og að ekki sé hægt að nýta fjármuni Kvikmyndasjóðs til annars en að styrkja kvikmyndagerð. Kvikmyndasjóður er undir yfirstjórn KMÍ. KMÍ og Kvikmyndasjóður gegna ólíkum hlutverkum samkvæmt kvikmyndalögum og vísa ég hér í upptalningu þeirra verkefna sem falla undir hlutverk KMÍ annars vegar og Kvikmyndasjóðs hins vegar og kemur skýrt fram í nefndaráliti.

Hlutverk Kvikmyndasjóðs er svo nánar útfært í reglugerð um sjóðinn, nr. 229/2003. Hvort á sinn hátt sinna bæði KMÍ og Kvikmyndasjóður því hlutverki að efla kvikmyndamenningu á Íslandi, með mismunandi hætti þó eins og hér er lýst.

Í umsögnum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og samtakanna kemur fram gagnrýni á að orðin „nema sérstök menningarleg rök leiði til annars“ í 2. mgr. 6. gr. laganna séu tekin út. Benda samtökin á að breytingin muni fyrirsjáanlega draga úr möguleikum Kvikmyndasjóðs til að styrkja t.d. verkefni í samframleiðslu innlendra og erlendra aðila þar sem íslenskir framleiðendur eru í minni hluta. Nefndin tekur undir þessar athugasemdir umsagnaraðila og leggur til að orðunum verði bætt við 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins, á eftir orðunum „samfélagsleg skírskotun“. KMÍ telur að skilgreining á hugtakinu ,,íslensk kvikmynd“ í frumvarpinu sé ómarkviss. Nefndin bendir á að engar breytingar eru lagðar til á skilgreiningunni ,,íslensk kvikmynd“ í frumvarpinu. Lagt er þó til í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins að ákvæðið verði fært úr 3. mgr. 1. gr. laganna. Í kjölfarið kemur skilgreining á hugtakinu „kvikmynd á íslensku“ og er með henni ætlað að skýra hvaða kvikmyndir eru styrkhæfar. Nefndin tekur undir með umsagnaraðilum um að framsetning frumvarpsins sé ekki nógu skýr og leggur til að síðari málsliður 2. mgr. 6. gr. verði færður í 3. mgr., en þar er fjallað um styrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku.

Í fyrrnefndri sameiginlegri umsögn er gerð athugasemd við að vísað sé til kvikmyndaráðgjafa sem meta styrkhæfi umsókna sem „þar til bærra aðila“, samanber 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Nefndin bendir á að áfram verði stefnt að því að notast við kvikmyndaráðgjafa en að sá möguleiki verði fyrir hendi í reglugerð að leita til annarra aðila ef svo beri undir. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að slík heimild verði vel skilgreind í reglugerð.

Nefndin er ósammála KMÍ um að stofnunin hafi heimild til hvers konar styrkveitinga, svo lengi sem styrkirnir falli að hlutverki Kvikmyndasjóðs um að efla íslenska kvikmyndagerð. Nefndin lítur svo á að einungis sé heimilt að veita styrki sem eru skilgreindir í lögunum sjálfum eða með reglugerð og að í 13. gr. frumvarpsins felist sú heimild til handa ráðherra. Áfram verður stefnt að því að notast við kvikmyndaráðgjafa til mats á styrkhæfi umsókna í Kvikmyndasjóð en lagt er til að sá möguleiki verði fyrir hendi í reglugerð að leita megi til annarra aðila ef svo ber undir og beinir nefndin því til ráðuneytisins að skilgreina slíka heimild vel í reglugerð.

Bæði KMÍ og samtökin telja ákvæði 3. mgr. 7. gr. frumvarpsins, um skyldu til endurgreiðslu, óljóst og að það virðist skapa skyldu til endurgreiðslu þegar kostnaður við kvikmynd er lægri en á umsóknardegi. Bendir KMÍ á að ljóst sé hvaða heimild sé verið að skapa en að útfærslan sé óskýr og leggur til breytt orðalag í 3. mgr. Nefndin tekur undir þá gagnrýni KMÍ og leggur til breytingu í samræmi við tillögu þeirra.

Í umsögn KMÍ kemur fram að rétt sé að kanna kosti þess að sameina starfsemi KMÍ og Kvikmyndasafnsins. Stjórnsýsla Kvikmyndasjóðs og almennar stuðningsaðgerðir á sviði kvikmyndamála hafa verið aðgreindar frá varðveislu kvikmyndaarfsins með gildandi kvikmyndalögum, nr. 137/2001, og Kvikmyndasafni Íslands falið varðveisluhlutverkið. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og telur nefndin ekki haldbær rök fyrir því að hverfa aftur til fyrra skipulags.

Í umsögn KMÍ kemur jafnframt fram varðandi skilaskyldu framleiðenda kvikmynda til Kvikmyndasafns Íslands að hvergi sé vísað til framleiðslustyrkja Kvikmyndasjóðs og greiðsluskiptingar þeirra. Nefndin tekur undir tillögu KMÍ um breytt orðalag síðari málsliðar 10. gr. og leggur til breytingu þess efnis að nánar sé kveðið á um framkvæmd skila í reglugerð.

Nefndin tekur ekki undir með KMÍ að núverandi verklag um mótun kvikmyndastefnu og meginskiptingu fjárveitinga og leggur áherslu á stefnumótunarhlutverk og ábyrgð ráðherra.

Í umsögn samtakanna er lagt til að sett verði stjórn yfir forstöðumann KMÍ. Nefndin bendir á að kvikmyndaráð hefur að hluta til þannig hlutverk. Frá setningu laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna hefur markvisst verið unnið að því að fækka stjórnum yfir ríkisstofnunum og ábyrgð forstöðumanna gagnvart ráðherra aukin. Er því mikilvægt að forstöðumaður geti borið ábyrgð á rekstri stofnunar gagnvart ráðherra.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með tillögu um breytingar sem ég hef nú reifað og eru listaðar í nefndaráliti. Ítarlegri grein er gerð fyrir þeim í nefndaráliti með breytingartillögunni og vísa ég þar með í þskj. 1157.

Undir álitið rita eftirtaldir hv. þingmenn: Páll Magnússon formaður, Willum Þór Þórsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Teitur Björn Einarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.