148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[15:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Já, hún er mikilvægt tillagan sem við ræðum um þjóðarsátt til að bæta kjör kvennastétta. Þetta er í raun tilraun til að ráðast að rótum vandans. Við vitum að það er 15–20% kynbundinn launamunur. Við vitum að hann er til staðar. Hann hefur verið allt of lengi til staðar. Við erum komin með ýmisleg tæki í íslenskt samfélag. Við erum með kynjakvóta í stjórnum. Við erum sem betur fer komin með jafnlaunavottunina sem í fyrra þurfti að taka með töngum frá þáverandi ríkisstjórn, en sem betur fer samþykkti þingið jafnlaunavottunina. En það þarf að gera meira og það þarf að gera betur.

Ég segi: Þetta er athyglisverð tilraun til að ráðast nákvæmlega að rótum vandans, gera eitthvað í hlutunum, ekki bara tala um þá heldur gera eitthvað til að bæta kjör kvennastétta, þar sem við sjáum lægri laun og það er kynbundið. Það þarf að gera sérstaka hluti í þeim efnum og í því felst efni þessarar þingsályktunartillögu.

Þar kemur margt athugunarvert fram og ég þakka hv. allsherjarnefnd fyrir að hafa farið yfir tillöguna. En ég verð að lýsa því yfir að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá meirihlutaálitið frá nefndinni. Ég veit að skoðanir eru skiptar meðal meiri hlutans og ekki síst í Vinstri grænum eru margir metnaðarfullir einstaklingar hvað varðar jafnrétti í samfélaginu. Eftir stendur að þetta er tillaga til að ráðast gegn þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir og það þýðir ekki að vera að draga allar tennur úr tillögunni sem slíkri.

Ef ég ætla að fara yfir í það að sjá eitthvað jákvætt get ég nefnt að verið er að afgreiða málið úr nefnd. Það er gott. Þá reynir á forystu í ríkisstjórn. Ég hef sagt áður að ég hef saknað þess að ríkisstjórn undir forystu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skuli ekki hafa sýnt meiri einurð og metnað til að leysa vandann og reyna að koma til móts við eðlilegar kröfur kvennastétta. Það er ekki gert tímabundið að leiðrétta launin núna heldur þarf ekki síður, ef mér verður litið til leikskólastigsins, fyrsta skólastigsins, grunnskólamenntunar, aðsókn í kennaranám, aðsókn í hjúkrunarfræði og hvert þeir einstaklingar fara að útskrift lokinni, að stuðla að því að launaumhverfi verði betra en það er núna. Það hefur margt gerst í menntamálum á umliðnum árum, á 10, 15 eða 20 árum, ekki spurning. Eftir stendur að leiðrétta þarf þetta launaumhverfi og það þýðir ekki að ýta því alltaf inn í framtíðina. Þess vegna var svo áhugavert og spennandi að sjá hvernig þetta yrði leyst.

Allar tennur dregnar úr tillögunni — já, segi ég. En eftir stendur að við höfum engu að síður eftirlitshlutverk á þinginu. Hvernig eigum við að beita því eftirlitshlutverki? Við verðum að halda ríkisstjórninni við efnið. Við verðum að binda vonir við að forsætisráðherra, formaður Vinstri grænna, beiti eftirlitshlutverki sínu gagnvart fjármála- og efnahagsráðherra til að fylgja tillögunni eftir og efnisinntaki hennar. Ég er mest hrædd um að menn afgreiði tillöguna og segi bara: Það er búið að samþykkja þetta. En síðan verði ekkert gert með það.

Af hverju segi ég það? Jú, m.a. vegna þess hvernig hefur verið samið við ljósmæður og hvernig umgengnin hefur verið gagnvart þeim á síðustu vikum og gagnvart öðrum kvennastéttum. Ef ég reyni að taka eitthvað jákvætt út úr afgreiðslu hv. meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar þá er það að við höfum tækifæri á þinginu til að beina eftirliti okkar að því hvernig ríkisstjórnin notar þessi skýru skilaboð, því að skilaboðin eru skýr. Skilaboðin eru þau að leiðrétta á kjör kvennastétta. Ég hefði viljað fara í gegnum sérstakt átak með þjóðarsátt, eins og lagt er upp með hjá minni hlutanum. En gott og vel ég ætla ekki að sleppa meiri hlutanum við það, ekki láta þau komast hjá því að fara í það verkefni.

Við stöndum frammi fyrir því tækifæri að brýna ríkisstjórnina, brýna Vinstri græn, og forystufólk þeirra í ríkisstjórn, til að fylgja þessu eftir af krafti. Ég veit að sá kraftur getur verið til staðar. Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að við bætum þetta umhverfi til að við fáum fólk í þessi störf, þannig að við fáum aðsóknina upp í kennaranáminu, í hjúkrunarfræðinni og inn á þá staði þar sem helstu kvennastéttir starfa, að við látum eftirspurnina verða eftir þeim störfum með því að laga launakjörin. Til þess þarf að sýna forystu og ég bind miklar vonir við að forsætisráðherra sýni þá forystu (Forseti hringir.) þegar málið hefur verið samþykkt hér á hinu háa Alþingi.