148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:21]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Sá hluti háspennta flutningskerfis raforku sem tengir saman helstu framleiðslusvæði er úreltur og flutningsgetan allt of lítil. Þetta er óumdeilt, tel ég, meðal allra sem um véla. Það er komið að því að færa það til nútímans og raunar lengra því að það er nú einu sinni þannig að flutningskerfi af þessu tagi er hannað til 30–40 ára hið minnsta. Það eru milljarðar króna í húfi, bæði vegna gerðarinnar sjálfrar, hvers konar raflínur þetta eru, og eins línuleiða, hvar línurnar eru lagðar, og síðast en ekki síst vegna afhendingaröryggis. Ég vil vekja á því athygli að þetta er í fyrsta sinn sem heildstæð stefna stjórnvalda í uppbyggingu flutningskerfis raforku er lögð fram og það er eitt dæmið enn um hvernig ríkisstjórnarsamvinnan leiðir til grunnstefnumótunar sem er undirstaða frekari skilvirkrar vinnu.

Ég get nefnt fleiri dæmi, einmitt orkustefnu, heildstæða orkustefnu fyrir landið, og ferðamálastefnu. Það hvort tveggja er fram undan. Uppbyggingu flutningskerfisins verður hagað þannig að um blöndu loftlína og jarðstrengja verður að ræða og línuleiðirnar valdar í sátt við umhverfi og raunverulega þörf fyrir flutning raforku til tiltekinna svæða. Þá minni ég á að dreifikerfið, þ.e. kerfið á lægri spennu, byggir nú þegar á ákvörðun um jarðstrengjavæðingu þar.

Ég vil líka minna á að þátttakendur í umræðunni og frekari stefnumótun í þeim efnum verða að kynna sér umfang, lagningu og virkni háspenntra jarðstrengja. Hún er nefnilega gjörólík því sem gerist þegar miklu viðaminni rafstrengir eru lagðir í lágspennta dreifikerfinu. Þá er ég að ræða um helgunarsvæði, alls konar jarðvinnu, miklar sprengingar og rippingar í gegnum berggrunn, ef um hann er að ræða en ekki laus jarðlög, burðarmikinn veg meðfram fyrirhuguðu jarðstrengjastæði og ótal slík atriði sem er mjög mikilvægt að hafa með í umræðunni þegar verið er að véla um þá hluti.

Það hefur mikil og þakkarverð vinna verið unnin, farið fram við gerð þessarar þingsályktunartillögu og eins hjá hv. atvinnuveganefnd, svo ég minnist ekki á þá sem hafa unnið við samninguna sjálfa upphaflega. Ég lít svo á að þingsályktunartillagan sé veruleg framför.