148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[18:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Það er allt á sömu bókina lært hjá þessari ríkisstjórn og þessum stjórnarmeirihluta. Það er ekki tekið á nokkrum sköpuðum hlut, jafnvel þegar um er að ræða mál sem stjórnarflokkar hafa gert að sínum helstu áherslumálum og þeir hafa tækifæri til að greiða atkvæði í samræmi við það, ná fram þessu stóra áherslumáli. Nei, þá greiða menn atkvæði gegn því eða vilja vísa málinu frá, setja það í nefnd. Þetta er allt spurning um að stofna bara nýjar og nýjar nefndir til þess að fást við hlutina, vegna þess að þessi ríkisstjórn tekur ekki á neinu, hún hefur enga framtíðarsýn, hún hefur engar lausnir. Svarið er alltaf bara: Ný nefnd. Jafnvel þótt það séu mál sem aðrar nefndir hafa fjallað um, sem nefndir hafa skilað niðurstöðu um, sem átakshópum hefur verið falið að framkvæma. Nei, svarið er alltaf: Ný nefnd. Jafnvel þegar um er að ræða eitt stærsta kosningamál eins af stjórnarflokkunum greiða þeir atkvæði gegn því að ná því í gegn.