148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fengið til sín gesti og umsagnir og rætt málið á nokkrum fundum.

Í frumvarpinu er kveðið á um að við tollalög bætist ákvæði til bráðabirgða. Í því felst að heildaraukning tollkvóta fyrir svonefnda upprunatengda osta verði heimiluð strax á gildistökuári samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur í stað þess að þeirri aukningu verði náð á fjórum árum. Þá er kveðið á um að móðurmjólk sem flutt er inn handa hvítvoðungum verði tollfrjáls.

Tilefni 1. gr. frumvarpsins er yfirlýsing þáverandi meiri hluta atvinnuveganefndar þegar ákvæði búvörusamninga voru lögfest haustið 2016, þ.e. 680. mál á 145. löggjafarþingi. Í áliti meiri hlutans kom fram að ákveðið hefði verið í samráði við ráðherra að hraða innleiðingu á auknum kvótum fyrir innflutning á sérostum þannig að hún kæmi til framkvæmda á fyrsta ári gildistíma samnings Íslands við Evrópusambandið. Með frumvarpi þessu er veitt lagastoð fyrir þeirri breytingu.

Meiri hlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að viðbót árið 2018 verði 105 tonn og að viðbót árið 2019 verði 105 tonn. Magnið yrði samkvæmt því innleitt á tveimur árum en ekki einu. Því yrði tollkvótinn 230 tonn frá og með árinu 2019. Jafnframt leggur nefndin til viðbætur við frumvarpið; annars vegar að með hliðsjón af lögum geti ráðherra sett nánari ákvæði um útfærslu ákvæðisins í reglugerð og hins vegar að fyrir 1. nóvember 2018 skuli ráðherra hafa látið vinna úttekt þar sem metin verði þau áhrif á íslenskan markað sem orsakast af innflutningskvótum á ostum sem eru verndaðir með upprunatáknum eða með vernduðum landfræðilegum merkingum. Úttektin skuli kynnt atvinnuveganefnd. Við matið skuli leitað eftir sjónarmiðum þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Atvinnuveganefnd muni á grunni úttektarinnar taka til umræðu hvort tilefni sé fyrir löggjafann að bregðast við með einhverjum hætti.

Meiri hlutinn beinir því til ríkisstjórnarinnar að hraða eins og mögulegt er aðgangsheimildum að innri markaði Evrópusambandsins fyrir mjólkurafurðir. Ítrekar meiri hlutinn þannig álit þáverandi meiri hluta atvinnuveganefndar frá 7. september 2016 þegar ákvæði búvörusamninga voru lögfest.

Meiri hlutinn bendir á að verðlagsnefnd búvara ákveður heildsöluverð á brauðosti hérlendis og því gæti íslenskum afurðastöðvum reynst erfitt að bregðast við snaraukinni samkeppni á brauðostamarkaði að öllu óbreyttu. Meiri hlutinn beinir því til verðlagsnefndar að huga að því hvort bregðast þurfi sérstaklega við þessum aukna innflutningi.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem hér segir:

Við 1. gr.:

Í stað orðanna ,,verði 210 tonn, hlutfallslega í samræmi við dagsetningu gildistöku samnings, og tollkvóti á ári eftir gildistöku samnings verði 230 tonn“ komi: verði 105 tonn og viðbót árið 2019 verði 105 tonn. Tollkvóti á ári frá og með árinu 2019 verður því 230 tonn.

Við bætist tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi: Ráðherra sem fer með málefni landbúnaðar setur nánari ákvæði í reglugerð.

Ráðherra sem fer með málefni landbúnaðar skal fyrir 1. nóvember 2018 láta vinna úttekt um áhrif innflutningskvóta á ostum, sem eru verndaðir með upprunatáknum eða með vernduðum landfræðilegum merkingum, á íslenskan markað og kynna atvinnuveganefnd. Við gerð úttektarinnar skal leita eftir sjónarmiðum þeirra sem eiga hagsmuna að gæta.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og Smári McCarthy skrifa undir álitið með fyrirvara.

Undir álitið taka: Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður, sá sem hér stendur, framsögumaður málsins, Inga Sæland, Halla Signý Kristjánsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, með fyrirvara eins og áður var sagt, Ásmundur Friðriksson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Smári McCarthy, með fyrirvara sem getið var áðan.

Þetta er álit nefndarinnar frá því fyrir helgi, á föstudaginn. Í framhaldi af því mun ég aðeins fara yfir málið og ræða það meira.

Öllum má vera ljóst að málið hefur verið unnið á miklum hraða á undanförnum dögum varðandi þetta tiltekna frumvarp atvinnuveganefndar og hafa mikilvægar upplýsingar komið fram í málinu á síðustu dögum. Í þáverandi áliti meiri hluta atvinnuveganefndar frá árinu 2016 kemur fram hvernig meiri hluti nefndarinnar sá fyrir sér framgöngu og framkvæmd málsins. Eftir seinni fund atvinnuveganefndar síðastliðinn föstudag fór sá sem hér stendur í frekari vinnu til að kynna sér málið betur eftir að miklar efasemdir höfðu vaknað við lestur og greiningu meirihlutaálits atvinnuveganefndar frá 2016 varðandi það sem snýr að tollasamningnum sem hér er til umræðu.

Nú þegar er komin til framkvæmda innflutningur á ostum eftir nýjum tollasamningi við ESB. Í byrjun maí var í fyrsta sinn úthlutað heimildum til innflutnings. Á þessu ári mun það magn sem heimilt er að flytja inn tæplega fjórfaldast. Á samningstímanum ellefufaldast það. Engin áform eru um að stöðva þá þróun. Með nýjum samningi er kollvarpað þeim hluta ostamarkaðarins sem nefndur hefur verið sérostamarkaður, sem er í dag skilgreindur um 240 tonn á Íslandi. Gert var ráð fyrir, eins og frumvarpið lá fyrir, samningurinn á sínum tíma, að á fjórum árum myndu þetta vera 230 tonn, svokallaðir sérostar, eða um 95% af innanlandsmarkaði.

Þegar meiri hluti atvinnuveganefndar sammæltist við ráðherra haustið 2016 um að hraða innleiðingu á auknum kvótum vegna innflutnings á sérostum var því samhliða beint til ráðherra að aðgangsheimildum á innri markað Evrópusambandsins fyrir mjólkurafurðir yrði einnig hraðað eins og mögulegt væri enda byggja slík ákvæði á gagnkvæmum aðgangsheimildum. Ekki hafa neinar formlegar viðræður við ESB vegna málsins átt sér stað frá því að samkomulag þetta var gert haustið 2016, m.a. sökum tíðra ráðherraskipta. Það gæti verið ein skýringin.

Í áliti meiri hlutans segir einnig: Umræddar tegundir osta sem njóta verndar innan ESB með vísan til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu, eru ekki framleiddar hér á landi og eru því ekki í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu. Það er lykilatriði í málinu. Var ráðuneytið sérstaklega spurt um það atriði síðastliðinn föstudag, þ.e. hvort nokkuð væri að finna á listanum um osta sem væri í beinni samkeppni við íslenska framleiðslu. Þetta er reyndar ekki núna á föstudaginn, það eru tvær, þrjár vikur frá því að í ljós kom að þetta áttu að vera ostar sem ekki væru í samkeppni við íslenska framleiðslu. Svarið sem kom frá ráðuneytinu var ávallt að svo væri ekki.

Í nefndarálitinu er skýrt að meiri hlutinn taldi að umræddur tollkvóti næði aðeins til osta sem ekki væru framleiddir hér á landi. Á þeim grunni var lagt til að hraða innleiðingunni. Þetta er sem sagt álit frá meiri hluta atvinnuveganefndar 2016 í ágúst. Fékkst svo staðfest á fundi atvinnuveganefndar með starfsmönnum utanríkis- og atvinnuvegaráðuneytisins síðastliðinn föstudag að á listanum væri sannarlega að finna osta sem væru í beinni samkeppni við íslenska framleiðslu.

Á grunni þessara nýju upplýsinga, að hér sé ekki einungis um að ræða osta sem ekki eru í beinni samkeppni við íslenska framleiðslu, sem og að ekki hefur verið unnið að því að hraða aðgangsheimildum fyrir íslenskar mjólkurafurðir á innri markaði ESB, er eðlilegast að vísa málinu aftur til atvinnuveganefndar. Af þessari staðfestingu ráðuneytisins er ljóst að hér skarast verulega stækkun á heimildum fyrir almennan ost og sérosta svo mikið að óhjákvæmilegt er að fara með það aftur til nefndarinnar og ræða áhrif þess á innlenda framleiðslu og framboð.

Eins og ég gat um áðan verður magnið orðið 230 tonn þegar tollkvótinn er allur kominn til afgreiðslu. Heildarframleiðsla sérosta hér á landi er 240 tonn. Í samningi Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur er gert ráð fyrir að tollkvótinn þrepist upp á fjórum árum svo íslenskir bændur og íslensk matvælafyrirtæki fái tíma til að aðlagast stórbreyttu samkeppnisumhverfi. Ekki eru liðnar margar vikur frá því að kom í ljós að innan um hina svokölluðu sérosta eru ostar sem verða í beinni samkeppni við íslenska brauðosta, tvær, þrjár vikur. Þeir ostar sem eru í beinni samkeppni við íslenska framleiðslu eru Gouda og Edam-ostar. Algengasti brauðostur sem framleiddur er hér á landi ber nafnið Gouda og íslenski brauðosturinn er byggður á Edam-ostum. Það er stórt og mikilvægt atriði í öllu þessu máli.

Einnig gátum við þess í áliti atvinnuveganefndar nú fyrir helgi og í breytingartillögu atvinnuveganefndar að verðlagsnefnd búvara ákveður heildsöluverð á þessum ostum hérlendis og beindum því til hennar að skoða þessi mál varðandi samkeppnisstöðuna enda getur verið mjög erfitt með núverandi kerfi í þessum málum að bregðast við snaraukinni samkeppni á brauðostamarkaði hér á landi.

Í þessu máli tel ég rétt að atvinnuveganefnd óski eftir við upplýsingaþjónustu Alþingis að hún vinni tímalínu sem snýr að stjórnsýslu málsins, aðkomu löggjafarvaldsins, framkvæmdarvaldsins og annarra í þessu máli, tímalínu sem myndi ná allt aftur til þess tíma að óskir komu fram um að gerður yrði tollasamningur við Evrópusambandið um innflutning sérosta.

Mér sýnist að slík tímalína þurfi að ná aftur til ársins 2011 eða 2012.

Það má ljóst vera að margt hefur klúðrast í ferli þessa máls á undanförnum sex til sjö árum, sérstaklega á síðustu þremur árum varðandi stjórnsýsluna. Það er því ósk mín sem framsögumanns málsins fyrir atvinnuveganefnd að ekki verði greidd atkvæði um breytingartillögu meiri hluta hv. atvinnuveganefndar að svo stöddu heldur legg ég til að málið fari til atvinnuveganefndar á milli 2. og 3. umr.