148. löggjafarþing — 79. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[23:32]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég veit eiginlega ekki alveg hvar ég á að byrja í þessu máli. Margt hefur verið sagt og margt hefur verið rætt, en í stuttu máli get ég ekki annað sagt en að ég hafi orðið fyrir verulega miklum vonbrigðum með málatilbúnað og umfjöllun og umræður, að sumu leyti í öllu falli, í tengslum við þetta mál. En ég held að fæst orð beri minnsta ábyrgð hvað það varðar, en ég hef þegar tekið það upp sérstaklega við forseta og formann nefndarinnar og nefndina sjálfa.

Það er dálítið írónískt samt að vera að ræða þetta mál hér, útflutning íslenskrar framleiðslu og annað slíkt. Með leyfi forseta, eru á forsíðu mbl.is fréttir af því að MS í samstarfi við Kaupfélag Skagfirðinga er að opna skyrframleiðslu í Rússlandi. Setur málið í svolítið skemmtilegt samhengi.

En í stuttu máli sagt hefur umræðan verið þannig að ég veit hreinlega ekki hvort meiri hluti nefndarinnar er að koma eða fara, svo oft hefur sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn skipt um skoðun í málinu, og maður er pinkulítið hugsi yfir þessum málatilbúnaði öllum saman. Auðvitað hefði verið heppilegast ef fyrri atvinnuveganefnd hefði klárað málið á réttan hátt og allt þetta klúður hefði ekki átt sér stað, en ég held að ljóst sé og nauðsynlegt, eins og hæstv. ráðherra lagði til, að málið verði klárað og leiðrétt. Það hefði verið heppilegast og best fyrir þingið. En staðan er sú sem við erum í í dag, einstaklega sérkennileg. Þó að þingmönnum í hliðarsölum finnist það greinilega mjög fyndið og skemmtilegt get ég ekki sagt að ég hafi neitt sérstaklega mikinn húmor fyrir því. Mér finnst virðing þingsins hafa borið svolítið skarðan hlut frá borði í þessu tilviki.