148. löggjafarþing — 79. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[23:49]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Það er kannski ágætt að hæstv. utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi farið yfir þetta mikilvæga hugtak um viðskiptafrelsi í ljósi þess að það er í rauninni nákvæmlega það sem ég hef verið að tala fyrir hérna, að við höfnum þessari fáránlegu breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar svo hægt sé einmitt að opna á viðskiptafrelsi í því formi að flytja inn þessa osta.

Í ljósi þess að ráðherrann talaði um tollfrelsið sem við búum við á Íslandi þá er ég reyndar þeirrar skoðunar yfirleitt að það að fella niður tolla einhliða veiki samningsstöðu ríkis gagnvart öðrum ríkjum þegar reyna á að skapa betri skilyrði til útflutnings á vörum sem eru framleiddar þar og auðvitað á að reyna að gera alla þessa hluti tvíhliða.

Nú vill svo til að í þessu máli hefur myndast ákveðin sátt við önnur lönd um að fella niður eða alla vega minnka skyrtolla að einhverju leyti. Og það sést líka á tölunum. Ég er með ágætistölur frá Hagstofu Íslands sem teknar voru saman af Íslandsstofu þar sem er rakið hvernig heildarútflutningur á mjólkurvörum hefur aukist, ekki alveg stöðugt, en mestmegnis á tímabilinu 2005–2017. Að vísu leitar þetta svolítið niður á við í augnablikinu, það kann hugsanlega að vera vegna sterkrar krónu, en almennt er ástandið þess eðlis að við erum að standa okkur betur. Auðvitað ættum við að geta opnað á aðeins lægri tolla á ostavörum í því samhengi.

Þannig má t.d. sjá í þeim gögnum að skyrútflutningur árið 2017 til Hollands, sem er okkar helsta gegnumflæðisland, var upp á 300 millj. kr., til Bretlands 160 milljónir, til Bandaríkjanna um 70 milljónir, til Færeyja um 70 milljónir og til Sviss um 40 milljónir. Samanlagt er þetta um hálfur milljarður kr. í skyrútflutningi einum talið. Það þykir mér býsna gott. Að vísu hrundi skyrútflutningur okkar til Finnlands fyrir nokkrum árum þegar finnskir aðilar byrjuðu að framleiða sambærilega vöru. Og það er að hluta til vegna þess að ekki hefur fengist vörumerkjaréttindavernd og heitisvernd á hugtakinu „skyr“, þannig að við stöndum höllum fæti vegna þess að þeim tiltekna pósti hefur ekki verið sinnt af okkar ráðherrum utanríkisviðskipta í gegnum tíðina.

Engu að síður er það þannig að þegar við lítum heilt yfir erum við að skoða stórkostlega breytt ástand í alþjóðaviðskiptum þar sem lönd eru að keppast við að koma með refsitolla og verndartolla á alla bóga. Það er því nauðsynlegt að við horfum á mál eins og þetta sem tækifæri til að vera aðeins öðruvísi og detta ekki ofan í þennan taumlausa popúlisma, sem veldur því að samfélög eru að færa sig fjær hvert öðru í fyrsta skipti í mjög langan tíma. Þannig mætti t.d. fella þessa breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar vegna þess að hún er fáránleg, hún er slæm, hún er ekki til að bæta ástandið hér. Við fáum svo sem nákvæmlega sömu niðurstöðu, en munurinn á einu ári og fjórum árum, eða tveimur árum og fjórum árum, er stórkostlegur. Hver hann er nákvæmlega fyrir þjóðarbúið, ég náði ekki alveg að reikna það áður en ég kom í þessa ræðu, en ljóst er að þegar við erum að tala um heildarframleiðslu hjá einum aðila — nýjustu tölur sem ég fann voru frá árinu 2012 — einn aðili, MS á Akureyri, var að framleiða 3.000 tonn af ostum. Það eru fleiri aðilar og árið er ekki lengur 2012. Við erum komin með töluvert opnari ostamarkað og miklu fleira er að gerast. En mig vantar nákvæma tölu um hversu mikið af osti er framleitt, en ég myndi giska á um 10.000 tonn til að vera mjög hóflegur í því. Það að opna á 230 tonn núna myndi ekki breyta mjög miklu fyrir ostaframleiðendur, en fyrir neytendur væri þetta ákveðin bylting vegna þess að það myndi auka vöruframboð á mjög ásættanlega vegu.

Það mætti tala miklu meira um þetta, nú er ég að renna út á tíma, en lykilpunkturinn er: Við erum að bæta okkur í útflutningi á mjólkurafurðum. Við ættum að opna meira á innflutning, á ostum sérstaklega, og við ættum auðvitað að standa (Forseti hringir.) okkur almennt betur í alþjóðaviðskiptum á þann hátt sem hægt er.