148. löggjafarþing — 80. fundur,  17. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[13:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Með leyfi forseta:

Rís, Íslands fáni. Aldir fylgja öldum,

og ættir landsins flytja þakkargjörð,

því sjálfstæð þjóð skal sitja hér að völdum,

uns Surtarlogi brennir vora jörð.

Leitum og finnum. Lífið til vor kallar.

Land var oss gefið, útsær draumablár.

Vér biðjum þess, að bygðir vorar allar

blómgist og vaxi — næstu þúsund ár.

Svo orti Davíð Stefánsson í einu af ljóðum sínum, Að Þingvöllum. Ljóð þetta, líkt og mörg ættarljóð, er okkur sem eftir komu þörf áminning um þá baráttu sem haldin var árum og áratugum saman áður en til fullveldisins kom þann 1. desember 1918. Fullveldið kom ekki af sjálfu sér heldur var kafli í langri baráttu.

Ísland er ungt lýðveldi þótt þingið sé hið elsta. Baráttan sem formæður og -feður okkar háðu fyrir fullveldinu og frelsinu ætti að vera í hávegum höfð og minna okkur hin á hve verðmætt það er.

Við sem höfum notið þess að heimsækja Íslandsbyggðir í Vesturheimi og ræða við frændfólk og aðra sjáum vel hve verðmætt fullveldið og lýðveldið er í augum þessa fólks og hve verðmætt landið var fyrir forfeður og -mæður þeirra sem flýja þurftu hörmungaraðstæður á landinu sem það elskaði svo mikið.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson fór fyrir hópi átta þingmanna sem lagði fram tillögu á síðasta þingi um að fullveldisdagurinn 1. desember yrði gerður að lögbundnum frídegi. Því miður náði sú tillaga ekki fram að ganga í það skiptið. Ég tel, hæstv. forseti, að í lok afmælisársins 2018 ætti Alþingi að minnast fullveldisins enn frekar og samþykkja 1. desember sem almennan lögbundinn frídag.

Hæstv. forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu sem flutt er af formönnum allra flokka sem sæti eiga á Alþingi. Tillagan er tvískipt. Í fyrsta lagi er lagt til að stofnaður verði Barnamenningarsjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár. Styrkja á verkefni á sviði barnamenningar, leggja áherslu á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna í samfélaginu og verkefni er stuðli að áframhaldandi innleiðingu barnasáttmálans svo eitthvað sé nefnt.

Þingflokkur Miðflokksins fagnar því að stutt sé vel við menningu barna, þátttöku barna í menningarstarfi og samfélaginu öllu. Menningin sem á sér svo ríkar rætur í sögunni er framtíðinni mikilvæg.

Í öðru lagi er lagt til að hafin verði smíði hafrannsóknaskips með framlagi af fjárlögum næstu þrjú ár. Sjálfstæði hverrar þjóðar byggir á mörgum sjálfstæðum en samverkandi þáttum og einn þeirra er efnahagslegt sjálfstæði. Forskotið sem við höfum í sjávarútvegi byggir m.a. á því að vel rekin og sterk atvinnugreinin hefur getað fjárfest í framtíðinni og þannig verið skrefi á undan samkeppnisaðilum. Slíkt er ekki sjálfsagt og því afar mikilvægt að atvinnugreinin sé áfram öflug og búi við sem stöðugast og öruggast umhverfi. Liður í því er að þekkja sem best lífríki hafsins, hvernig það þróast og breytist, hvernig megi áfram nýta það á sjálfbæran og vandaðan hátt. Til þess þarf öflugt vísindafólk og tæki af bestu gerð.

Þingmenn Miðflokksins fagna því sérstaklega að formenn stjórnmálaflokka leggi til að byggt verði nýtt, öflugt hafrannsóknaskip. Þess tvö mál sem hér er eru sett saman í eina tillögu eru, hvort um sig, mikilvæg og vel til þess fallin að minnast fullveldisins. Þá mun þingflokkur Miðflokksins styðja þá tillögu sem hæstv. forseti mun mæla fyrir síðar í dag.

En gleymum því aldrei að þjóð sem ekki ræður sjálf yfir landi sínu og auðlindum, hvernig það er nýtt og verndað, er ekki frjáls og fullvalda.

Hæstv. forseti. Undanfarin ár hafa sumir talið að fullveldi og sjálfstæði megi skerða með því að undirgangast sífellt meira og meira af lögum og reglum sem aðrir semja og setja. Til eru þeir sem telja að það dugi ekki og vilja ganga bandalögum annarra ríkja á hönd og afsala þannig stórum hluta sjálfsákvörðunarréttar fullvalda og frjáls ríkis til erlendra aðila.

Megi það aldrei verða.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Fögnum fullveldinu. Áfram Ísland.