148. löggjafarþing — 82. fundur,  18. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[14:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti Íslands, forseti Alþingis, góðir Íslendingar. Undirritun sambandslaganna um fullveldi Íslands er einhver merkustu tímamót í sögu landsins og mikilvægasti áfangi í sjálfstæðisbaráttunni. Það er því vel við hæfi að efna til þessa sérstaka fundar á Þingvöllum í dag þar sem við hugsum með þakklæti í brjósti til þeirra sem höfðu forystu í sjálfstæðisbaráttunni og þar með þeim framförum fyrir land og þjóð sem fylgdu í kjölfarið.

Það má segja að árið 1918 hafi byrjað kuldalega með frostavetrinum mikla og endað með miklum látum, en um haustið gaus Katla með tilheyrandi jökulhlaupi og gjóskufalli. Landið okkar minnti með öðrum orðum vel á sig árið sem við öðluðumst fullveldi. Náttúran er á vissan hátt enn við sama heygarðshornið 100 árum síðar. Því verður svo sem ekki líkt saman en ætli þessa sumars verði ekki minnst sem rigningasumarsins mikla og með nýjustu tíðindum af Öræfajökli sést að áfram má gera ráð fyrir tíðindum úr iðrum jarðar. Það er ekki óvænt að náttúra landsins skuli minna kröftuglega á sig þessi árin því að hún hefur ávallt verið samtvinnuð lífi og sjálfstæði okkar Íslendinga.

Það hefur skipt sköpum um lífsafkomu okkar að hafa náð að beisla orkuna og nýta auðlindir landsins okkur til framdráttar á öldinni sem er liðin. Sérstök gæfa er í því fólgin að þetta höfum við gert með sjálfbærni að leiðarljósi og í sífellt vaxandi mæli er tekið tillit til náttúrunnar og langtímahagsmunir hafðir að leiðarljósi. Mig langar í þessu samhengi að nefna sjálfbæra nýtingu fallvatna okkar og ekki síður samfellda þróun fiskveiðistjórnar með sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins að leiðarljósi.

Íslenskur sjávarútvegur er og verður ein af lykilstoðum íslensks samfélags. Framþróun í sjávarútvegi er því ekki eingöngu mikilvæg fyrir greinina sjálfa heldur fyrir landið allt. Við Íslendingar höfum skipað okkur í fremstu röð þegar kemur að skynsamlegri nýtingu sjávarauðlinda og við erum í fararbroddi á mörgum sviðum í sjávarútvegi. Öflugar rannsóknir á lífríki sjávar eru grunnur að þessari sjálfbæru nýtingu. Það fer því vel á því að að hér í dag sé lögð fram sameiginleg þingsályktunartillaga formanna allra flokka á Alþingi þar sem lagt er til að hafin verði smíði nýs hafrannsóknaskips. Með nýju hafrannsóknaskipi stígum við stórt skref í að bæta enn getu okkar til haf- og fiskirannsókna íslenskum sjávarútvegi og þjóðinni allri til heilla.

Virðulegi forseti. Við stöndum á fleiri tímamótum en aldarafmæli fullveldis. Örar samfélagsbreytingar eru nú þegar hafnar og munu móta íslenskt samfélag á komandi árum. Fjórða iðnbyltingin mun leiða til grundvallarbreytinga á hagkerfum og valda víðtækum samfélagsbreytingum og þar er Ísland ekki og verður ekki undanskilið. Það er því afar mikilvægt að undirbúa kynslóðir framtíðarinnar vel fyrir þær breytingar sem við horfumst nú í augu við.

Það fer vel á því að í þingsályktunartillögu þeirri sem nú er lögð fram sé þannig einnig að finna ályktun þess efnis að stofnaður verði nýr og öflugur barnamenningarsjóður sem mun hafa það meginhlutverk að efla sköpunarkraft barna og ungmenna. Með því að stuðla að aukinni þátttöku barna í listsköpun, hönnun og nýsköpun búum við börnin okkar betur undir breyttan heim. Jafnframt er barnamenningarsjóði ætlað að efla samfélagsvitund og stuðla að lýðræðislegri þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu.

Ég tel að með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er á dagskrá séum við að sá tveimur ólíkum fræjum sem bæði munu gefa af sér ríkulegan ávöxt fyrir framtíðarkynslóðir landsins. — Ég óska landsmönnum öllum til hamingju með daginn.