149. löggjafarþing — þingsetningarfundur

ávarp forseta Alþingis.

[14:26]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Ég býð hv. alþingismenn og gesti Alþingis við þingsetningarathöfnina velkomna. Ég vænti þess að við munum eiga gott og uppbyggilegt samstarf á nýju löggjafarþingi og vona að störf okkar megi verða landi og þjóð til heilla. Sömuleiðis heilsa ég starfsfólki Alþingis og þekki af langri reynslu að það mun leggja sig fram og gera sitt ýtrasta til að starfið hér á þingi verði árangursríkt.

Við komum nú saman til þingsetningar á hefðbundnum tíma eftir að hafa upplifað óvenjulegar aðstæður á tveimur síðastliðnum árum: Þing var ekki sett á árinu 2016 fyrr en í desember og á árinu 2017 var Alþingi sett tvisvar með þriggja mánaða millibili, í september og desember það ár. Þingstörfin ættu því að vinnast betur og skipulegar nú þegar við höfum heilt þing fram undan.

Þegar núverandi stjórnarflokkar mynduðu ríkisstjórn í nóvemberlok 2017 vakti það athygli og var ánægjulegt að í stjórnarsáttmálanum var sérstök áhersla lögð á að efla Alþingi. Þessi áhersla hefur endurspeglast, bæði í fjárlögum fyrir þetta ár og í fjármálaáætlun. Í samræmi við heimildir fjárlaga ársins verða á næstunni stigin skref til að bæta bæði gæði lagasetningar og efla fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis. Er ráðning nýrra sérfræðinga í því skyni langt komin. Þá er í fjárlögum aukið framlag til sérfræðiþjónustu við þingflokka en stærsta breytingin í þeim efnum sem í vændum er lýtur þó að aðstoð við þingflokka, en ætlunin er að styrkja verulega starf þeirra á þessu kjörtímabili með ráðningu aðstoðarmanna þingflokka þegar á þessu þingi og svo framvegis á næstu tveimur árum.

Forsætisnefnd Alþingis gekk frá starfsáætlun þingsins fyrir 149. löggjafarþing um miðjan ágúst sl. að höfðu samráði við ríkisstjórn og formenn þingflokka. Starfsáætlunin er í meginatriðum með sama sniði og á undanförnum þingum. Ég ítreka þá afstöðu mína að mikilvægt er að starfsáætlunin sé marktæk vinnuáætlun Alþingis. Það er þýðingarmikið að þingmenn geti á grundvelli hennar og vikuáætlana skipulagt störf sín vel. Ég teldi líka æskilegt, væri þess kostur, að starfsáætlunin lægi fyrir fyrr á árinu sem og er afar mikilvægt að markviss og raunhæf þingmálaskrá ríkisstjórnar sé til staðar fyrir upphaf þingsetningar. Á þessu ári hefur sú nýbreytni verið tekin upp að hæstv. forsætisráðherra komi til samráðsfunda um samskipti Alþingis og Stjórnarráðsins og um þingmálaskrána. Hafa tveir slíkir fundir þegar verið haldnir; í apríl sl. og nú við upphaf þings.

Þá vil ég einnig greina frá því að brátt fer að sjá fyrir endann á vinnu við endanlega útfærslu á hönnun og gerð útboðsgagna fyrir nýbyggingu á Alþingisreit. Undirnefnd forsætisnefndar hefur átt um það efni gott samstarf við Framkvæmdasýslu ríkisins og arkitekta hússins.

Þessum þingfundi verður brátt frestað og vil ég biðja þingmenn og gesti að þiggja veitingar í tilefni dagsins í Skála Alþingis.

Ég bið hæstv. forsætisráðherra að ganga fremstan með mér út úr salnum til Skála. Þessum fundi verður nú frestað til kl. 16.