149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Loksins eftir þrjú ár fær fjárlagafrumvarp alvöru þinglega meðferð. Undanfarin tvö fjárlagafrumvörp hafa verið unnin á handahlaupum í þinginu með tilheyrandi vandamálum í eftirliti með framkvæmd fjárlaga. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 var lagt fram í desember 2016 eftir að kjörtímabilinu lauk skyndilega vegna uppljóstrana um eignir Íslendinga í skattaskjólum.

Það fjárlagafrumvarp var byggt á fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar og var langt frá því að vera í samræmi við áætlunina. Sögulega er það fjárlagafrumvarp þó merkilegt því að það náðist samkomulag um fjárlög þrátt fyrir að hafa verið lagt fram af starfsstjórn en ekki sitjandi ríkisstjórn.

Ný ríkisstjórn setti sér svo nýja fjármálaáætlun og var tilbúin að leggja fram frumvarp um fjárlög fyrir árið 2018 þegar sú stjórn sprakk vegna trúnaðarbrests, þegar Björt framtíð sagði sig úr stjórnarsamstarfinu vegna þess að ákveðnir ráðherrar fengu aðgang að upplýsingum um uppreist æru málið.

Þá var boðað til eins mikilla skyndikosninga og hægt var að gera og síðan kom nýtt fjárlagafrumvarp núverandi ríkisstjórnar um miðjan desember. Fjárlagafrumvarp í desember í annað skiptið í röð sem átti að miða við fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar. Þetta er þá í fyrsta skipti sem fjárlög verða lögð fram af ríkisstjórn sem einnig samdi gildandi fjármálaáætlun. Það er samt aldrei að vita hvað gerist á næstu mánuðum, eins og reynsla fyrri ára kennir okkur kannski.

En um hvað snúast þessi fjárlög? Samkvæmt stjórnarskrá og lögum þá tilgreina fjárlög þær fjárheimildir sem ríkisstjórnin hefur úr að moða á fjárlagaárinu. Í fjárlögum kemur fram hvað þær aðgerðir kosta sem ríkisstjórnin hyggst fara í til að ná markmiðum sínum. Það vill svo vel til að ein af aðgerðum ríkisstjórnarinnar er að leggja fram framgangsskýrslu fyrir ríkisstjórnina um það hvernig það gengur að uppfylla stjórnarsáttmálann. Þessi aðgerð kostar pening, annars væri hún væntanlega ekki í fjárlagafrumvarpinu, en miðað við framsetningu þessarar aðgerðar í frumvarpinu, þá fá engir aðrir að sjá þessa skýrslu. Þannig er ríkisstjórnin að eyða almannafé til að búa til skýrslu til að þau fái að sjá hvernig þeim gengur að framfylgja stjórnarsáttmálanum sem þau bjuggu sjálf til. Ef eyða á almannafé í svona skýrslu þá eiga fleiri að fá að sjá skýrsluna. Ef það var ætlunin að sýna öllum þessa skýrslu þá sést það alla vega ekki í frumvarpinu. Ef svo var hvet ég einfaldlega ríkisstjórnina til að sýna okkur hinum hvernig þau meta hvernig þeim gengur að uppfylla stjórnarsáttmálann, annars geta þau bara notað sinn eigin pening, ekki almannafé til að búa til þessa skýrslu. Peninginn þá sem þau fá frá styrktaraðilum en ekki peninginn sem þau fá af almannafé.

Þegar fjárlög eru skoðuð þarf að hafa fjármálaáætlun til hliðsjónar vegna þess að stefna ríkisstjórnarinnar er sett fram í fjármálaáætluninni. Þar eru tilgreind markmið og aðgerðir. Þar ætti að koma fram kostnaðaráætlun og helst ábatagreining á hverri aðgerð sem stjórnvöld ætla að fara í. Í núgildandi fjármálaáætlun eru engar slíkar kostnaðar- og ábatagreiningar og því mjög erfitt fyrir ríkisstjórnina að útskýra af hverju hún þarf allan þennan pening. Ef ríkisstjórn segist ætla að tryggja virka þátttöku í NATO svo ávallt séu til staðar trúverðugar og sýnilegar varnir, með leyfi forseta, eins og segir í fjárlagafrumvarpinu, þá þarf ríkisstjórnin að gefa upp áætlaðan kostnað fyrir þá aðgerð. Það er ekki flóknara en það.

Fjárlögin eru ekkert betri en áætlunin hvað þetta varðar. Það er engin kostnaðargreining á aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Engin leið til að púsla saman af hverju ríkisstjórnin þarf alla þessa milljarða sem hún biðlar til þingsins í þessu frumvarpi til fjárlaga.

Hvað biður ríkisstjórnin um? Á bls. 135 er yfirlit um breytingar á útgjöldum. Þar kemur fram að bundin útgjöld eru 27 milljarðar, gamlar skuldbindingar, sem er ekki hægt að komast hjá, eitthvað svoleiðis. Felldar eru niður fjárheimildir upp á 5,5 milljarða vegna þess að tímabundin verkefni eru að klárast. Útgjöld lækka síðan um 2,6 milljarða vegna betri skilvirkni eða einhvers konar aðhalds og svo eru ný og aukin framlög í frumvarpinu upp á 19,5 milljarða. Þar eru tínd til framlög til samgöngumála upp á 5,5 milljarða, 4 milljarðar í kerfisbreytingar í almannatryggingum, 2,3 milljarðar í hækkun atvinnuleysisbóta, ýmis verkefni á sviði heilbrigðismála upp á 4 milljarða og umhverfismála upp á 1,3 milljarða.

Þessi almenna sundurliðun er alls ekki nægilega góð. Það verður að koma fram í hverju málefni fyrir sig, þegar gerð er grein fyrir aðgerðum stjórnvalda, hvað stefna stjórnvalda kostar. Einungis þannig er hægt að meta ávinninginn. Þegar markmið og aðgerðir í fjármálaáætlun og fjárlögum eru skoðuð kemur í ljós að sum markmiðin hafa meira að segja breyst og margar aðgerðir úr fjármálaáætlun eru bara horfnar og aðrar nýjar komnar inn í fjárlagafrumvarpið.

Þetta er ekki alveg beint dæmi um þá festu og stöðugleika sem á að heita grunngildi í opinberum fjármálum. Við eigum að haga okkur þannig, samkvæmt lögum um opinber fjármál, að stefna stjórnvalda er sett fram í fjármálaáætlun. Fjármálaáætlunin segir til um það innan hvaða ramma ríkisstjórnin á að leggja fram fjárlög. Ef hún vill breyta markmiðunum og aðgerðum þá gerir hún það í næstu fjármálaáætlun. Vissulega getur það gerst að vel gengur, einhver aðgerð er kannski bara uppfyllt, búið að klára hana. Þá þarf ekki að halda henni áfram, þá þarf ekki að biðja um aukafjárveitingu, það væri þá ágætt að það kæmi fram, en það gerir það ekki.

Eitt er áhugavert hvað þetta varðar. Þegar vantar kostnaðargreininguna og með tilliti til þeirrar sögu sem við höfum orðið vitni að í þinginu varðandi meðhöndlun fjárlaga, þá er einmitt ekki hægt að leggja til lækkun fjárlaga af því að ekki er til kostnaðargreining á aðgerðum ríkisstjórnarinnar eða verkefnum framkvæmdarvaldsins. Þá getur þingið ekki skoðað það; já, þetta eru öll þau verkefni sem þið ætluðuð í, ef við þurfum að herða aðeins ólina þá gætum við sleppt þessum og þessum verkefnum eða seinkað þeim eitthvað eilítið. Það er, held ég, varla að lögð sé fram nein sérstök lækkun á fjárlögum, a.m.k. ekki á þann markvissa hátt sem kemur að stefnu stjórnvalda.

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gær kom fram hjá fjármálaráðherra að við séum með bestu efnahagsstöðu sem við höfum upplifað. Vandamálið er að það er ekki út af einhverju sem við gerðum. Ástæðan er enn einu sinni út af efnahagslegum hvalreka sem er í þetta skipti í líki ferðamanna, áður var það t.d. síld, makríll og ál. Við búum einmitt við svona ákveðið hvalrekahagkerfi, þar sem við erum í stöðugum gullgreftri í staðinn fyrir að vinna í alvörunni að einhverri uppbyggingu. Hvað varð t.d. um fjórðu stoðina? Hvar er nýsköpunin í fjármálaáætluninni og í fjárlögum?

Við erum stöðugt í íslensku hagkerfi að elta næstu bólu. Núna erum við að upplifa ákveðna ferðamannabólu, sprengingu á fjölda ferðamanna til landsins. Það er ástæðan fyrir því að við erum með svona góðan efnahag, ein ástæðan. Það er ekki nein sérstök aðgerð sem nein ríkisstjórn lagði í til þess að fjölga ferðamönnum á þennan hátt. Vissulega var farið í kynningu á Inspired by Iceland o.s.frv. en það var ekki markmið í sjálfu sér að ná þessari nýju stoð efnahagsins sem ferðamennskan er orðin. Það var ekki markmið upp á það að gera. Þetta bara gerðist.

Ýmislegt fleira vantar í fjárlagafrumvarpið og í upplýsingar svona almennt séð. Það er mikið fjallað um hvað skuli gera fyrir hina og þessa tekjuhópa. Hvernig staðan er, hvort við erum að fara í áttina að jöfnuði, þá í tekjum eða eignum, eða ekki. Það sem mér finnst mjög áhugavert er að þó að talað sé einmitt um að við séum á góðum stað varðandi kaupmátt þá er aldrei talað um dreifinguna á neinn sérstakan hátt. Hvernig kaupmáttaraukning er að virka fyrir mismunandi tekjuhópa. Þær upplýsingar er ekki svo auðvelt að finna og varla hægt að finna í t.d. upplýsingum Hagstofunnar. Ég get ekki farið og séð: Kaupmáttur lægsta tekjufimmtungsins var þetta mikill. Ég get bara ekki séð það. Það er hægt að sjá meðaltöl. Þau hjálpa okkur ekki eins og sést mjög greinilega í muninum á meðallaunum og miðgildislaunum og það kom fram í svari fjármálaráðherra hérna áður, hvað t.d. hækkun á skattleysismörkum myndi þýða upp í 300 þús. kr. Það sýnir okkur hversu rosalega margir hafa lágar tekjur, útskýrir það af hverju miðgildistekjur togast niður frá meðaltalstekjum um 100 þús. kr. eða svo.

Þetta eru upplýsingar sem skipta rosalega miklu máli fyrir okkur. Að við séum með dreifinguna á því hvernig tekjur raðast á milli mismunandi hópa í landinu þegar við erum að taka ákvörðun um eitthvað eins og fjármálin. Því miður eru bara tíu mínútur til að tala um þetta hérna og ég er með nokkrar blaðsíður í viðbót en því miður er umræðan í einhverju samningsbundnu formi. Við þingmenn getum tekið til máls hérna á eftir og þá kem ég vonandi fleiri atriðum að en þessar umræður, eins ágætar og þær eru, að fá alla ráðherra í svona spjall eins og verður á morgun, þá held ég að vanti samt líka aðeins rýmri tíma fyrir talsmenn og fjármálaráðherra eins og hann sagði í upphafsræðu sinni til að flytja fjárlögin.