149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:11]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki alltaf langt á milli mín og hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Þó að við séum ósammála líklegast um flest er það ekki alveg allt. Ég held að það sé alveg sanngjarnt að velta fyrir sér hvort við höfum „tekið að láni“ eitthvað af innviðunum. Ég held að það sé alveg rétt og að hægt sé að færa mjög skynsamleg rök fyrir því enda hef ég vakið athygli á því í ræðustól að það er líklegast uppsöfnuð þörf í innviðum upp á 500 milljarða. Það voru ekki margir hér í salnum sem tóku undir þá skoðun en ég hef vakið athygli á því.

Þá getum við orðið sammála um að það er kannski 500 milljarða skuld í innviðum. Það kann að vera. (BLG: Á hvaða vöxtum?) En þetta er ekki svona einfalt. Við eigum líka að ræða um eignir ríkisins. Nýtum við þær skynsamlega? Nei, ríkið á töluvert af fasteignum, fyrirtækjum, ýmsum eignum sem það nýtir ekki skynsamlega. Ég hef fengið gagnrýni fyrir, m.a. frá félögum hv. þingmanns, þegar ég hef fært rök fyrir því og barist fyrir því að við umbreytum ákveðnum eignum ríkisins og færum inn í samfélagslega innviði. Ég hef t.d. nefnt Flugstöð Leifs Eiríkssonar, að það sé skynsamlegt að selja hana, umbreyta þeim tekjum í vegi og brýr eða byggja upp frekar í heilbrigðisþjónustunni, menntakerfinu o.s.frv.

Ég held nefnilega að við horfum ekki alltaf af mikilli skynsemi á það með hvaða hætti við nýtum þær eignir sem ríkið heldur á og á ekkert að vera að vesenast með. Við eigum að taka þessa umræðu.

Hitt er rétt hjá hv. þingmanni, að ýmislegt er (Forseti hringir.) ógert þegar kemur að samfélagslegum innviðum, hvort heldur er í heilbrigðiskerfi eða menntakerfi og ég tala nú ekki um samgöngumál.