149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:20]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er vont ef hv. þingmanni líður eins og ég sé með reiðilestur en það er kannski bara skagfirska röddin sem er svona. Árið 1974 var ég svo gæfusamur að taka þátt í uppsetningu Þjóðleikhússins á Jóni biskupi Arasyni á Hólum í Hjaltadal þar sem þúsundir manna horfðu undir leikstjórn Gunnars Eyjólfssonar og mér tókst nokkuð vel og það heyrðu allir í mér.

En reiðilesturinn, já, það getur verið að mér hætti til þess. Auðvitað var ég að mæra hv. fjármálaráðherra, þó það nú væri, fyrir árangurinn. En það er alveg rétt að halda skal til haga þætti hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Og það hef ég gert, hv. þingmaður, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur ítrekað, bæði í þessum ræðustól og í skrifum.

Það er tiltölulega auðvelt, ef menn hafa áhuga á því, og ég geri mér alveg grein fyrir að það eru mjög fáir sem hafa áhuga á því, að átta sig á því hvaðan ég kem, hvert ég er að fara og hvaða skoðanir ég hef og hef haft. Ég hef reynt að hafa það sem reglu að þegar ég skipti um skoðun, sem gerist því að eftir því sem ég eldist átta ég mig alltaf betur og betur á því að ég er ekki óskeikull frekar en aðrir í salnum — árið 2007 skrifaði ég grein í Morgunblaðið þar sem ég fjallaði m.a. um fyrirhugaða byggingu Landspítalans við Hringbraut. Ég gagnrýndi ekki staðarvalið en ég gagnrýndi að hugsanlega væri verið að leggja af stað með það að byggja sjúkrahús þegar við værum ekki búin að byggja grunninn. Ég líkti því við að byggja þak án þess (Forseti hringir.) að hafa grunn eða veggi. Ég get komið að því síðar.