149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar eiginlega til að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra, ég fagna því mjög hversu þaulsætinn hann hefur verið við umræðuna, því að mig langar að ræða við hann sem fagráðherra vegna þess að hann verður ekki hér á morgun. Það þykir mér miður vegna þess að undir hans ráðuneyti heyra veigamiklar stofnanir sem ég hefði gjarnan viljað eiga við hann orðastað um. Áður en ég geri það vil ég fagna sérstaklega því sem fram kom í andsvari hæstv. ráðherra rétt áðan í umræðunni þar sem hann lýsti áhuga sínum til þess að halda vöxtum á Íslandi lágum. Velkominn í hópinn, hæstv. ráðherra.

Það fyllir mann nokkurri bjartsýni, að vísu í bland við það sem kom út í gær, þ.e. fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að halda hér óbreyttum stýrivöxtum. Hún er náttúrlega jafn óskiljanleg og allar aðrar slíkar fundargerðir sem komið hafa fram í nokkur misseri, því að það skiptir engu máli hvernig ástandið er í umheiminum eða hvernig árar á Íslandi, að vaxtaákvarðanir Seðlabankans lifa sjálfstæðu lífi að því er virðist.

Það vekur líka upp umræðu eða spurningu um annað. Ég fékk 28. júní síðastliðinn þegar þingið var farið í frí svar við fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. ráðherra einhvern tímann í mars ef ég man rétt eða febrúar um innflæði kviks áhættufjármagns. Í ljós kom að árið 2017 höfðu flætt hingað inn tæpir 134 milljarðar á móti 95 árið áður. Þetta er náttúrlega afleiðing af þeirri vaxtaveislu sem hér er boðið upp á meðal annars og pumpar upp gengi krónunnar sem hefur komið í ljós að veldur nokkrum atvinnugreinum erfiðleikum, tímabundið alla vega.

Þá spyr maður líka, af hverju í ósköpunum lækkuðu menn ekki vexti, stýrivexti, myndarlega árið 2015 þegar a.m.k. sá sem hér stendur mælti mjög með því? Það hefði væntanlega komið í veg fyrir þessa gríðarlega miklu styrkingu krónunnar og það hefði örugglega sparað mönnum í ferðabransanum og í fiskvinnslunni nokkrar áhyggjur hef ég trú á og hefði klárlega ekki pumpað inn verðbólgu. Klárlega ekki. Við erum enn í því að ryksuga hingað inn peninga, áhættufé, vegna þess að við bjóðum upp á vaxtastig sem er hvergi annars staðar til. Það verður engin breyting á því meðan slík stefna er uppi.

Ég hnýt líka um það þegar maður les þessi fjárlög að þá fyllist maður svolítið söknuði yfir því að ekki skyldi vera farið að ráðum okkar Miðflokksmanna í vor um það að Arion banki yrði tekinn yfir og allur hagur af því að selja bankann eða hluta af honum kæmi inn í ríkissjóð vegna þess að við erum með fjárlög upp á 29 milljarða í afgang. Þá var verið að greiða út hluthöfum Arion banka 10 milljarða í arð um daginn. Stærsti bitinn sem óseldur er í þeim banka er Valitor, sem er líklega bókfærður upp á um 17 milljarða í bókum bankans, væntanlega 70–80 milljarða virði. Ég hefði glaður viljað sjá þá peninga enda í ríkissjóði, enda gamall innheimtumaður hans, í staðinn fyrir að sjá þá enda í vogunarsjóði einhvers staðar í and… afsakið, herra forseti, það má ekki segja. Þannig að þetta hryggir mig nokkuð.

Nú fer um mig nokkur hrollur líka vegna þess að hér er boðað að heimild sé til að selja Íslandsbanka. Í ljósi þess hvernig menn fóru að ráðum okkar — eða fóru ekki að ráðum okkar Miðflokksmanna um Arion bankann, þá hef ég áhyggjur af því hvernig sú sala muni fara fram, virkilega, og ég held réttmætar. Þar inni er fyrirtæki sem heitir Borgun og við höfum áður farið flatt á því að selja það fyrirtæki eða hluta þess svo það sé sagt.

Mig langaði hins vegar að tala við hæstv. ráðherra um þrjú embætti sem undir hann heyra, þ.e. tollgæsluna, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra. Það er talað nokkuð um þessi embætti á bls. 222 og 223 í þessu ágæta fjárlagafrumvarpi. Þar segir að markmiðið í málaflokknum sé að bæta skattskil og öflun tekna til sameiginlegra útgjalda. Ég hrópa að sjálfsögðu húrra fyrir því.

Það segir líka að skattrannsóknir og eftirlit eigi að efla m.a. með áherslu á áhættustjórnun, vinnutillögur starfshópa um frekari aðgerðir gegn skattundandrætti og skattaskjólum. Þetta kallar líka á húrrahróp.

En ég sé enga peninga þarna til þess að framkvæma þetta. Það kemur fram aðeins neðar að fjárheimildir, þ.e. þegar maður tekur frá launahækkanir, hækki um tæpar 150 milljónir, þar af fara 130 milljónir til þess að endurbæta búnað á Keflavíkurflugvelli í anda Schengen-samkomulagsins, allt gott um það, en það er hvergi krónu að sjá til að fjölga þarna höndum eða hugum. Ég hef sagt það áður að tollgæslan er mjög fjársvelt og eftirlit hennar er í sjálfu sér kraftaverk. Þar er unnið kraftaverk á hverjum degi. Menn vinna þar mjög gott starf við mjög erfiðar aðstæður. Við verðum ef við ætlum að ná árangri — þetta snýst ekki bara um innheimtu króna í ríkissjóð þó að þær séu mikils virði og maður veit náttúrlega að efld tollgæsla mun skila peningum í ríkissjóð. Það liggur fyrir. Það er reynsla fyrir því. Það mun gerast. Það eru hins vegar ýmis óæskileg aukaefni sem við viljum að tollgæslan finni og komi í veg fyrir að komist inn í landið.

Ég hjó eftir því í umræðum um stefnuræðu, þ.e. hjá hæstv. heilbrigðisráðherra í gærkvöldi, að hún hefur sett nýja reglugerð um lyfseðilsskyld lyf, þ.e. magn þeirra sem má koma með til landsins, og boðaði hert eftirlit. Ég spyr: Hver á að annast þetta eftirlit? Tollgæslan er full … af þeim verkefnum sem hún er að vinna núna. [Hávaði utan húss.] — Það er engu líkara en við séum stödd á Landspítalalóðinni núna. — En þarna þarf að bæta í til að við getum náð árangri.

Eins er það að ég fagna þeim markmiðum sem hér koma fram sem varða bæði skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra. Ég veit að ríkisskattstjóri hefur verið með herferð í gangi eða átak til þess að efla innheimtu t.d. í veitinga- og ferðabransanum, hefur gengið þokkalega. Því ber að fagna. En það er á sömu bókina lært, þar er ekkert fé.

Ef við ætlum að fá betri innheimtu, ef við ætlum að fá meiri innheimtuárangur — sá sem hér stendur er ekki talsmaður skattlagningar, hann er hins vegar mikill talsmaður skattinnheimtu, hann vill að gjöld séu innheimt sem búið er að leggja á. Því hvet ég til þess að bætt verði úr í meðferð þingsins á frumvarpinu.

Nú bendi ég enn á það sem ég benti á í fyrra, ég gæti tekið aðra löggæslustétt hér inn, þ.e. lögregluna, vegna þess að bara á höfuðborgarsvæðinu vantar milljarða á ári til þess að koma lögreglunni í svipað ástand og hún var fyrir 17 árum, þ.e. fjöldi lögregluþjóna á íbúa að teknu tilliti til ferðamennskuaukningar, að hluta til, o.s.frv. Þar eru menn komnir algjörlega að fótum fram og eru að forgangsraða verkefnum. Menn eru að forgangsraða verkefnum. Ef á okkur er ekið eða ráðist hér fyrir utan húsið þá lendum við einhvers staðar í forgangsröð. Það er sjálfsagt einhver annar sem er verr farinn einhvers staðar annars staðar í bænum, þá hefur hann náttúrlega að sjálfsögðu forgang. Þetta er ólíðandi ástand. Ef ekki verður brugðist við því núna mun illa fara. Ég veit um þá peninga sem settir eru í löggæsluna eða lögregluna í þessu frumvarpi, þeir fara flestir suður á Keflavíkurflugvöll í landamæragæslu, það er vel, en okkur vantar götulögregluna, okkur vantar almenna lögreglumenn.

Ég hef sagt það áður og ætla að ítreka það enn einu sinni, að til þess að koma einum sólarhringsmanni í vinnu hvort sem er hjá tollgæslu eða lögreglu, þarf að ráða fimm. Eitt sólarhringsstöðugildi eru fimm menn miðað við 12 tíma vaktir. Þetta þurfum við að hafa í huga. Þess vegna kostar þetta peninga. En auðvitað verðum við að gera þetta vegna þess að við verðum að tryggja öryggi borgaranna og við verðum að tryggja landamæri landsins. Það er það sem við verðum að gera.

Því spyr ég ráðherra: Hvað hyggst hann gera til að koma að því áhugamáli okkar sameiginlega að lækka vexti?

Hvað ætlar hann að gera til að hjálpa við að tollurinn geti eflt sitt eftirlit?

Hvað ætlar hann að gera til að ná markmiðum þeim sem sett eru hér fram um bætta innheimtu opinberra gjalda, bæði hjá ríkisskattstjóra og hjá skattrannsóknarstjóra?