149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það fyrr í dag hvernig lífeyriskerfið er uppbyggt. Það gerir beinlínis ráð fyrir því að við séum í skuldlausu húsnæði þegar við komumst á lífeyrisaldur. Ef við berum verulegan kostnað af húsnæði dugir lífeyririnn einfaldlega ekki til fyrir langflesta. Þegar hv. þingmaður spyr hvort við ættum að fara að íhuga aðra stefnu og láta af þeirri stefnu að eignast steinsteypu þá þurfum við að hafa lífeyriskerfið með í þeim pælingum. Ég tek undir orð hv. þingmanns í þá átt því að það eru alls ekki í allir í sama mót steypt hvað varðar að vilja eignast steinsteypu á nákvæmlega þessum stað um ókomna ævi eða hvernig sem það er. Sumir vilja vera meira á flakki. Það að lenda í óhappi á lífsleiðinni gerir fólki ómögulegt að safna sér fyrir innborgun eða standa undir afborgunum og dæmir fólk í rauninni úr leik þegar það er komið á lífeyrisaldur. Það er held ég alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að öllu skiptir að tryggja þak yfir höfuðið. Dæmin í samfélaginu í dag sýna tvímælalaust að augljóslega hefur verið misbrestur á þeirri undirstöðu lífeyriskerfisins. Við höfum misst af þeim göllum þess hliðarkerfis sem við höfum í (Forseti hringir.) lífeyriskerfinu að ekki allir ná að tryggja sér þak yfir höfuðið fyrir lífeyrisaldur.