149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:35]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni andsvarið. Ég get algjörlega tekið undir það sem hv. þingmaður kom inn á að samhliða því að við breytum hugsuninni í því hvernig við formúlerum húsnæðisstuðning þurfum við auðvitað að tryggja líka að fólk geti raunverulega framfleytt sér. Hins vegar veit hv. þingmaður það eins og ég að tregða einstaklinga til þess einmitt að nota steinsteypuna, svo að við höldum áfram með myndlíkinguna, til að framfleyta sér í ellinni er gríðarlega mikil. Við þekkjum líklega öll dæmi um það þegar fólk velur einhverra hluta vegna að dvelja áfram í allt of stórum húsum hafandi nánast engar tekjur af öllum peningunum sem liggja í þeim verðmætum sem húsið er og hafa að auki kannski allt of lága framfærslu. Það tengir þá í rauninni ekki við þá aðferðafræði sem hv. þingmaður kom inn á, þ.e. að steinsteypan eigi að vera maturinn okkar í ellinni. Þetta er náttúrlega innan gæsalappa, hv. þingmenn, og ég vona að mönnum finnist það ekki of flókin pæling. En það er hárrétt hjá þingmanninum að samhliða breytingunni þarf líka að verða breyting þarna. Við þurfum kannski að endurskoða hvað við borgum inn í lífeyriskerfið, hvernig við hugsum áherslurnar á lífeyriskerfinu o.s.frv.