149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er sennilega rétt sem hv. þingmaður kemur inn á að fólki geti þótt vænt um steinsteypu. Við erum líklega öll þannig að einhverju leyti. Auðvitað tengjast minningar búsetustöðum okkar og allt gott um það að segja, en ég get huggað hv. þingmann með því að minningarnar um búsetu í einhverju húsi gleymast ekki endilega þótt við flytjum. Þær eru áfram til staðar en steypan sjálf kannski ekki.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, við erum með mjög ríkulega tekjutengingar í öllum bótakerfum, eða velflestum bótakerfum skulum við segja því að það er náttúrlega ekki í alveg öllum. Ég er einn þeirra sem hafa haldið því fram bæði opinberlega og annars staðar að við höfum líklega gengið fulllangt í þeim. Núverandi ríkisstjórn er að því leyti til sammála því að hún hefur ákveðið að byrja þá vegferð að draga úr skerðingunum. Hv. þingmaður veit eins og ég að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir töluverðum hækkunum, bæði í kerfi almannatrygginga umfram fjölgun lífeyrisþega og einnig í bótum til öryrkja.