149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:41]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þegar ég fæ fjárlagafrumvarp í hendurnar er sá kafli sem ég kíki alltaf fyrst í kafli númer tvö, um efnahagshorfur. Það er hreinlega vegna þess að þegar við tölum um fjárlög fjallar það um hvort fjárlögin standist, það er algerlega háð því hvort efnahagurinn helst, eftir því hvernig spáin er gerð.

Þetta er í rauninni eini kaflinn sem ég hef náð að kynna mér nægilega vel til þess að geta sagt eitthvað um málið á þessu augnabliki. Sem betur fer fáum við nánari umræðu á morgun um ákveðna kafla. Ég verð greinilega að leggjast í lestur í kvöld. En þegar ég horfi á kaflann um efnahagshorfur er ýmislegt áhugavert. Það eru nokkrir smátoppar sem ég sé ekki alveg hvernig standast. Það er bara eins og á hverju einasta ári þegar ég hef horft á svona kafla. T.d. er gert ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting snúist við, sem mér finnst ekki vera augljóst út frá þeim tölum og upplýsingum sem gefnar eru. Einnig er talað um að fjármunamyndun vegna íbúðarhúsnæðis muni snarlega minnka. Kranarnir víðs vegar um Reykjavíkurborg eru ekki til marks um það í augnablikinu.

Þarna eru því ýmsar forsendur sem útskýra þarf betur.

En sá þáttur sem mig langar að beina sjónum mínum að er ákveðinn fíll í herberginu sem eingöngu er minnst á á einum stað í kaflanum um efnahagshorfur. Hann er, að því er ég best sé, hvergi annars staðar nefndur á nafn og kemur t.d. hvergi fram í kaflanum um efnahagslega óvissuþætti, sem mér þætti full ástæða til. Fíllinn sem um ræðir er viðburður sem mun eiga sér stað eftir 197 daga að öllu óbreyttu, það er Brexit. Þetta er viðburður sem ekki er útséð um að muni eiga sér stað, það eru meiri líkur á að hann muni gerast en ekki. Það eru einhverjar hreyfingar í Bretlandi um að fara í aðra átt en þær hreyfingar eru ekki með mikinn stuðning stjórnvalda þar í landi á bak við sig. Við horfum upp á ákveðna hluti gerast þarna.

Upp á samhengið, herra forseti, segir hér í kaflanum um efnahagshorfur:

„Reiknað er með minni vexti útflutnings en áður sakir minni vaxtar í ferðaþjónustu en væntingar stóðu til. Má gera ráð fyrir að það stafi m.a. af sterku gengi krónunnar og óvissu vegna Brexit á Bretlandsmarkaði.“

Þetta er eini staðurinn þar sem Brexit er nefnt á nafn. Þó segir í skýrslu sem kom árið 2016, með leyfi forseta:

„Á árinu 2015 voru fluttar út vörur til Bretlands fyrir um 73 milljarða kr. sem var um 12% af öllum vöruútflutningi á því ári. Hefur vöruflutningur til Bretlands aukist jafnt og þétt undanfarin ár og nam rúmlega 9% af heildarvöruútflutningi 2013 og 11% 2014.“

Þarna er komin ákveðin línuleg stigmögnun sem við ættum að geta metið stöðuna út frá og ímyndað okkur hvernig hún er í dag. Ég fann ekki nýlegri tölur, því miður.

Til viðbótar þessu er um að ræða þjónustuviðskipti upp á liðlega 50 milljarða kr. á ári. Þetta eru í rauninni alveg gríðarlega stórir viðskiptahagsmunir fyrir Ísland.

Hvað kemur þetta fjárlögum við? Jú, að sjálfsögðu er það þannig að ef viðskipti minnka, jafnvel óverulega, við þetta næststærsta viðskiptaland okkar á eftir Hollandi — eða það stærsta ef horft er á Holland á sanngjarnan hátt þar sem flest af því sem við flytjum þangað fer út um allt — þarf ekki mikinn samdrátt í viðskiptum við Bretland til þess að það fari að hafa áhrif á ríkistekjur. Eru það bæði skatttekjur og ýmiss konar önnur gjöld sem ríkið tekur til sín. Það gæti þar af leiðandi skekkt myndina verulega hvað fjárlögin varðar. Það gæti orðið til þess að minni afgangur yrði eða jafnvel að bregðast þyrfti við einhvers konar áföllum af öðrum toga.

Þá kemur þetta: Ég hef ekki séð neinar sviðsmyndir. Það eru svo sem sviðsmyndir sem greina áhrif á hagkerfið í skýrslu um áhrif Brexit á Ísland, í hagsmunagreiningu sem kom frá utanríkisráðuneytinu í vor, að mig minnir, frekar en síðasta haust. Þar er verið að skoða hagkerfið í heild sinni en ég hef hvergi séð neina greiningu á áhrifunum á ríkisfjármál. Það veldur mér töluvert miklum áhyggjum.

Það er, eins og var nefnt í gær af mér og fleiri hv. þingmönnum, ýmislegt sem bendir til þess að þetta eigi eftir að verða erfiðara ár, þ.e. síðasti hluti ársins 2018 og árið 2019, erfiðara en ákjósanlegt væri. Við erum náttúrlega búin að ganga í gegnum mjög langt og gott hagvaxtarskeið, en jafnvel þótt Brexit komi ekki til sögunnar horfum við samt á vandamál í samfélaginu. Ef Brexit kemur ofan á það með þessum hætti sem stefnir kannski í eftir 197 daga og um sjö klukkutíma, að mér reiknast til, að gæti ástandið orðið bara verulega slæmt.

Líkurnar á að það verði enginn samningur eru kannski litlar en þess þó heldur ætti að vera einhver sviðsmyndagreining um hvaða möguleikar eru núna í boði, og búið er að slá ýmsa möguleika út af borðinu á undanförnum tveimur mánuðum. Þá eru eftir nokkrir möguleikar: Enginn samningur, takmarkaðir samningar, einhvers konar framlenging og, ja, hver eru áhrifin á ríkisfjármálin? Mun þetta minnka skatttekjur ríkisins um 10 milljarða, 15, 20, 30, 50? Ég veit það ekki. Veit einhver það?