149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:05]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skelegg svör að vanda. Væri kannski ástæða til að líta pínulítið inn á við, þangað sem við vorum á síðasta kjörtímabili þar sem var ástæða til að skerða tekjur ríkissjóðs um 21 milljarð kr. með því að lækka bankaskatt um 63% sem kostar okkur 7 milljarða? Við vitum öll hvaða kæra hug landsmenn bera til þess kerfis eins og það fór með okkur 2008. Var vert að lækka neðra þrep skattkerfisins um 1% sem kostaði okkur 14 milljarða? Við erum að tala um 21 milljarð. Þetta eina prósent sem er talið eiga að nýtast láglaunafólki gefur því ekki hálfa pítsu á mánuði.

Núna er líka verið að tala um að gefa í persónuafsláttinn. Ég ætla að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að segja hér hreint út að væri verið að lækka hann um 1% umfram hina lögbundnu vísitöluhækkun neysluverðs sem er 3%. Það er í fyrsta skipti sem ég hef fengið að heyra það og það var hér. Það finnst mér vel vegna þess að í veðri hefur verið látið vaka að það væri hreinlega verið að koma mjög rösklega fram við láglaunafólkið og hækka persónuafsláttinn um 4% sem var náttúrlega ekki nema bara að hluta til sannleikurinn.

Þegar við getum lækkað innkomu í ríkissjóð svona augljóslega um 21 milljarð án þess að það nýtist þeim sem það myndi gera frekar ef við hefðum haldið þessu inni, 21 milljarður í það vandamál sem við horfum upp á núna í sambandi við fíkn, í sambandi við sjúkleika, í sambandi við andlega annmarka og vanlíðan — ég segi bara: Vá, hvað ég hefði viljað hafa þá peninga hér til að nota í þágu þeirra sem á þurfa að halda.