149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það er tvennt sem ég vil aðeins ræða við hæstv. forsætisráðherra. Í fyrsta lagi eru það fjárveitingar til ríkisstjórnarinnar en þær nema 635 milljónum í þessu frumvarpi. Um er að ræða hækkun upp á 175 milljónir milli áranna 2018 og 2019. Það er svo að þróun aðstoðarmanna ríkisstjórnarinnar er sláandi. Engin ríkisstjórn hefur haft eins marga pólitíska aðstoðarmenn. Kostnaðurinn vegna aðstoðarmanna hefur aldrei verið nálægt því eins mikill og nú. Hann nemur um 430 milljónum á ári. Það eru miklir peningar.

Ef við setjum þá upphæð í samhengi myndi hún nægja til að hækka árslaun allra 280 til rúmlega 350 starfandi ljósmæðra um 1,5 millj. kr.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er ekki hægt að komast af með færri aðstoðarmenn? Fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, komst t.d. ágætlega af með einn aðstoðarmann.

Hefur hæstv. forsætisráðherra hvatt ráðherra ríkisstjórnarinnar til að hafa eins fáa pólitíska aðstoðarmenn og hægt er?

Síðan langar mig að koma inn á það sem ráðherra sagði rétt áðan varðandi það að nýta skattfé skynsamlega. Þetta snýr að sjálfsögðu að því en það er auk þess annar málaflokkur sem ég hefði viljað nefna, en ég sé að tímans vegna mun ég koma því að síðar.