149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:53]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverðar vangaveltur og spurningar. Það er rétt, ég legg mikla áherslu á slíka einföldun. Það getur verið auðvitað hvort tveggja, að við séum einfaldlega að fella brott einhverjar reglugerðir og það mun vonandi líka felast í því að ég komi hér inn með einhvers konar bandorm þar sem við munum breyta ýmsum lögum, það er þá lagafrumvarp sem tekur aðeins lengri tíma. Rafræn stjórnsýsla er síðan risaþáttur í þessu. Það sem ég myndi vilja sjá er að það sé einfaldlega miklu auðveldara fyrir fólk og fyrirtæki að eiga í samskiptum við ríkið og það skipti fólk og fyrirtæki minna máli í hvaða súlu viðkomandi stofnun er, leyfi eða kröfur eða hvað, heldur sendi fólk og fyrirtæki inn í einhvern glugga og svo er það ríkisins að finna út úr því hvar það á heima. Það eru svona atriði sem ég held að skipti miklu máli, að við séum að stytta í rauninni tímann, fækka vinnustundum og minnka vesen fyrir fólk, það eykur þá líka skilvirkni hins opinbera. Sömuleiðis finnst mér kominn tími á það að við yfirförum mjög vandlega og ítarlega allar þær kröfur og ég segi hindranir sem við erum með. Oft eru réttmætar ástæður fyrir hindrununum og við viljum ekki taka þær burt, en við þurfum að vera meðvituð um að þær séu til staðar.

OECD-verkefnið er liður í því, þar ætlum við að taka fyrir byggingariðnaðinn frá því að einstaklingur eða aðili fær úthlutað lóð þangað til hann er búinn að byggja. Sömuleiðis þennan feril í ferðaþjónustu. Þetta er síðan hægt að yfirfæra yfir á aðra lagabálka.

Varðandi grunnrannsóknirnar og tækniuppbygginguna á þessi tækniyfirfærsluskrifstofa sem er verið að vinna að því að reyna að koma einmitt til móts við þetta. Við vitum af mjög öflugum rannsóknum í háskólasamfélaginu og annars staðar, en við vitum líka að við getum gert miklu betur í að yfirfæra þá þekkingu þannig að hún komist á framkvæmdastig og við getum farið að búa til meiri verðmæti úr þessari þekkingu.