149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:55]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta. Að fella brott reglugerðir, að koma með bandorm, gæti að vísu þýtt í rauninni hvað sem er. Það væri áhugavert að fá nánari útlistun á því hvaða tilteknu aðgerðir í raun menn eru með í huga.

Rafræn stjórnsýsla er að sjálfsögðu af hinu góða og alveg frábært að það verði auðveldara fyrir fyrirtæki að eiga í samskiptum við ríkið. Auðvitað held ég að allir geti verið sammála um ágæti þess að reyna að fækka vinnustundum og veseni fyrir fólk. Það er algjörlega frábært.

Gætum við talað um raunverulegar konkret aðgerðir, t.d. að lækka kostnað við stofnsetningu fyrirtækja, að minnka lausafjárkröfur, að bæta regluverkið þannig að frumkvöðlar þurfi ekki endilega að borga sér markaðslaun ef þeir eru sjálfir eigendur fyrirtækjanna? Er hægt að bæta, þétta, sameina jafnvel einhverja samkeppnissjóði? Það er svo margt sem væri hægt að gera til þess að gera allan rekstur fyrirtækja miklu auðveldari á Íslandi og það er þörf á því að heyra einhverjar raunverulegar og konkret hugmyndir um hvað eigi að gera.