149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:57]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Já, við ráðherrarnir tveir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu erum til að mynda að vinna að því að fá utanaðkomandi aðila til þess að yfirfara allt það sem undir okkur heyrir — það getur vonandi nýst öðrum ráðuneytum líka en þetta er auðvitað atvinnuvegaráðuneyti — til þess einfaldlega að taka til í reglunum.

Það er til ákveðinn gagnagrunnur þar sem er tekið fram, t.d. varðandi öll leyfi og annað slíkt, hvort það sé bundið við EES-innleiðingu eða hvort það sé bara eitthvað sem við höfum búið til. Við viljum fara algjörlega í gegnum þann lista og tína út það sem mögulega er hægt að gera hvað það varðar.

Varðandi markaðslaunin er það eitt atriði sem ég hef verið að skoða og er opin fyrir því að reyna að vinna það áfram. Mér finnst það sanngirnisatriði, að hægt væri að koma til móts við minni aðila á þessu stigi, að þeir þyrftu ekki að greiða sér markaðslaun á ákveðnu tímabili. Hvort það eigi að sameina sjóði er nokkuð sem ég myndi líta svo á að væri hlutverk þeirra sem koma að vinnunni við nýsköpunarstefnuna að leggja til og það er partur af því þegar ég spyr: Eru allir fjármunirnir þarna úti á réttum stað, getum við nýtt þá betur o.s.frv.?

Þegar ég horfi á listann af fólkinu sem er að fara að taka þátt í þessari nýsköpunarstefnu, og hv. þingmaður er þar fyrir hönd Pírata, bind ég miklar vonir við þessa stefnu. Ég held að vinnan við hana verði svolítið öðruvísi en hefur verið hingað til í stefnumótun fyrir hið opinbera. Mér finnst það mjög áhugavert. Ég er mjög spennt fyrir því að við séum í einhvers konar nýsköpun við nýsköpunarstefnuna. Þær hugmyndir sem hv. þingmaður fer hér yfir eiga mjög vel heima í þeirri vinnu og ég mun taka þær tillögur og gera mitt allra besta til að vinna kröftuglega úr þeim. Það er nefnilega svo margt í þessu sem er hægt að gera sem mig grunar að sé ágæt samstaða um hér og úti í samfélaginu. Við þurfum bara að fara að demba okkur í verkið. Þess vegna fagna ég því að vinnan við þessa stefnu er nú að hefjast.