149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör. Það er mjög mikilvægt að skýrt liggi fyrir hvaða hlutverk þessum stofnunum er ætlað og eins varðandi stjórnstöðina. Ég get tekið undir hvert orð hæstv. ráðherra. Lykillinn að öflugri stefnumótun er auðvitað góð og skýr greiningarvinna bæði til skilnings og til þess að taka ákvarðanir inn í framtíðina með þessa sístækkandi og mikilvægu atvinnugrein í samfélagslegu og efnahagslegu samhengi.

Nýsköpunarþátturinn tengist þessu af því að þegar við segjum að hlutverk stjórnstöðvar sé í og með að fá yfirlit yfir þessa víðtæku atvinnugrein er í stjórnarsáttmála talað um opinbera klasastefnu. Ég veit að ég og hæstv. ráðherra erum sammála um að sjálfsprottnir klasar séu af hinu góða og hafi skilað góðum árangri. Verkefnið er ekkert ósvipað í stefnumótun og með Stjórnstöð ferðamála, þ.e. að ná fram samvinnuþættinum, samtakamættinum og meiri árangri en ella í margfeldi samvinnunnar.

Í stjórnarsáttmála er kveðið á um að við munum fara í þá vinnu að móta opinbera klasastefnu sem ég tel að hafi vantað. Norðmenn hafa gert slíkt með góðum árangri. Danir hafa gert það með góðum árangri. Í áratugi hefur slíkt starf verið í samvinnu Evrópuþjóða. Ég vil spyrja ráðherra hvar sú vinna (Forseti hringir.) stendur.