149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:19]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég ætla fyrst að vera ósammála því að hér sé rosalega óheppilegt umhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Mér finnst fréttir síðustu daga hafa sýnt að ýmislegt mjög gott er að gerast, sem er nánast að öllu leyti þeim að þakka og þrotlausri vinnu þeirra. Það er þó þannig að stjórnvöld hafa líka stigið inn með markvissum hætti til að bæta umhverfi fyrirtækjanna. Það skilar árangri, til að mynda ef horft er til þess að við höfum stóraukið samkeppnissjóði. Það tekur auðvitað mörg ár að sjá árangur slíkrar innspýtingar en ég held að við séum að fara að horfa á það.

Við erum búin að hækka þakið varðandi endurgreiðslur, rannsóknir og þróun. Ef spurt er hver stefna ríkisstjórnar er og hvað við ætlum að gera ætlum við einmitt að vera þar. Við höfum tekið ákvörðun um að við ætlum að leggja sérstaka áherslu á að vera framúrskarandi umhverfi fyrir rannsóknir og þróun. Það er endurgreiðsla, það má segja að það sé ívilnun en það er samt heilt yfir fyrir hvers konar starfsemi. Það er ekki verið að handvelja ákveðna tegund. Ef fyrirtæki stunda rannsóknir og þróun, sem er í nánast hvers kyns verðmætasköpun, viljum við að þær einingar séu hér.

Auðvitað vill maður ekki sjá á eftir sterkum fyrirtækjum úr landi. Að hluta til er það líka eðlilegt. Öll lönd glíma við að reyna að hafa umhverfið þannig að fyrirtæki geti orðið sem stærst í heimalandinu.

Við höfum fengið röð ánægjulegra tíðinda úr þessum geira undanfarna daga. Ég hef fulla trú á því að með skýrri stefnumótun, sem ég vona að komi eitthvert stefnumótandi plagg úr sem við fylgjum þá eftir með aðgerðum, tökum við frekara skref í átt að því að vera framúrskarandi og hafa upp á ákveðna þætti að bjóða. Við getum aldrei boðið upp á allt það besta fyrir alla, fyrir allt umhverfið. Það skiptir líka máli að ákveða hvar maður ætlar að staðsetja sig í virðiskeðjunni. Það er t.d. varðandi rannsóknir og þróun.