149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:33]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að tekjur til ríkisins og sveitarfélaga eru auðvitað gífurlegar af ferðaþjónustu og útflutningstekjurnar mjög háar líkt og hv. þingmaður kom inn á. Við höfum verið að setja mun meiri fjármuni til hennar en fyrir töluverðu síðan, t.d. í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Ég nefni líka mikilvægi þess að horfa á þetta í samhengi við landsáætlunina sem heyrir undir umhverfisráðherra sem er ný. Fyrst þegar hún kom fram voru ekki miklir fjármunir í henni. Nú hefur verið bætt verulega í þar. Mér finnst Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og landsáætlun um uppbygginguna fara vel saman, mér finnst það spila vel saman. Annað er samkeppnissjóður og hitt er stefnumótun til lengri tíma með ákveðinni forgangsröðun. Þetta eru auðvitað mjög miklir fjármunir.

Hv. þingmaður nefnir að það eigi að forgangsraða í hlutfalli við mikilvægi greinarinnar. Ég veit ekki hvort ég tek undir það. Það sem skiptir máli er að við séum með þá uppbyggingu sem þarf til. Ég veit að ferðaþjónustan hefur ekki alltaf verið á þeirri skoðun að það sé þannig, en við erum líka með ýmis önnur verkefni sem við viljum fjármagna. Ef t.d. er horft til þess hversu miklir fjármunir fara í heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi eru það atvinnugreinar og fólk sem býr til verðmæti sem borgar fyrir þá þjónustu sem við einmitt viljum. Það er nú einfaldlega þannig. Þegar þau útgjöld aukast mjög er það bara fólkið í þessu landi sem býr til verðmætin til þess að eiga fyrir því. Það getur því verið erfitt að forgangsraða í hlutfalli við mikilvægi greinarinnar.

Auðvitað er það líka þannig að þarfir ferðaþjónustunnar snúast síðan að miklu leyti um vegasamgöngur og aðra þætti sem heyra undir aðra ráðherra, löggæslumál og heilbrigðismál svo sem líka. En þarna kemur það líka inn sem ég nefndi áðan varðandi þjónustugjöld. Ég vil sjá það þannig. Ég vil frekar sjá meiri dreifstýringu en miðstýringu þegar kemur að uppbyggingu innviða á ákveðnum stöðum, að þessi svæði séu efnahagslega sjálfbær þegar kemur að því að byggja sig upp og þau hafi þá verkfæri til þess að rukka ferðamennina sem koma þannig að við getum verndað náttúruna og tryggt jákvæða upplifun fyrir þá.