149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019 og undir þessum dagskrárlið skiptum við ráðherrar með okkur verkum og nú er komið að því að ræða fyrst og fremst málaflokkinn heilbrigðismál og þá fjárlagaliði sem þar undir heyra.

Eins og fram hefur komið, og kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra og ekki síður hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag, er uppbygging samfélagslegra innviða forgangsverkefni núverandi ríkisstjórnar. Það er sannast sagna þannig að þrátt fyrir að efnahagslífið hér á landi hafi rétt verulega úr kútnum eftir efnahagshrunið er enn verulegt verk að vinna hvað varðar uppbyggingu innviða velferðarkerfisins.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að íslenska heilbrigðiskerfið eigi að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum, að allir landsmenn eigi að fá notið góðrar þjónustu óháð efnahag og búsetu. Til að því takmarki verði náð verðum við að halda áfram styrkingu velferðarkerfisins, heilbrigðisþjónustunnar og félagslegra þátta. Sú styrking ríkisstjórnarinnar hófst með samþykkt Alþingis á fjárlögum ársins 2018 þar sem framlög til heilbrigðismála voru aukin verulega en einnig með samþykkt fjármálaáætlunar sem Alþingi afgreiddi í vor fyrir árin 2019–2023 þar sem gert er ráð fyrir því að útgjöld til reksturs heilbrigðismála muni aukast um 79 milljarða alls á tíma fjármálaáætlunarinnar og að stofnkostnaður vegna byggingarframkvæmda verði 101 milljarður á því sama tímabili.

Fjárlagafrumvarp ársins 2019 endurspeglar þær áherslur sem lagðar eru í stjórnarsáttmálanum. Í fjármálaáætluninni og því fjárlagafrumvarpi sem hér er til umfjöllunar má sjá umtalsverða hækkun á framlögum til heilbrigðismála. Hækkunin nemur samtals um 12,6 milljörðum kr. að frátöldum launa- og verðlagshækkunum. Í frumvarpi til fjárlaga sem við ræðum nú birtast nokkrar megináherslur á sviði heilbrigðismála. Mig langar til að nefna nokkra þætti: Eflingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu, lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga, byggingu nýs Landspítala, öflugri göngudeildarþjónustu og bætta geðheilbrigðisþjónustu. Þessir þættir eru fjármagnaðir í fjármálaáætluninni og sérstök áhersla á þá í umræddu fjárlagafrumvarpi.

Samkvæmt frumvarpinu verða framlög til heilsugæslu aukin um tæpan 1 milljarð kr. og þar af renna um 650 milljónir sérstaklega í að styrkja geðheilbrigðisþjónustuna innan heilsugæslunnar, m.a. til að fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslunni og fjölga geðheilsuteymum. 200 milljónum verður varið til þess að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og í því samhengi verður teymisvinna innan heilsugæslunnar aukin, forvarnir og fræðsla til sjúklinga.

Framlög til heimahjúkrunar verða aukin um 100 milljónir og 70 milljónum verður varið til að innleiða fyrsta áfanga skimunar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Áfram verður unnið að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga, framlög til framkvæmda vegna uppbyggingar Landspítala við Hringbraut aukast um 4,5 milljarða kr., framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna hefjast í haust og fullnaðarhönnun rannsóknahúss er fyrirhuguð á næsta ári.

Efling göngudeildarþjónustu verður forgangsmál og í því skyni verður veitt sérstakt 200 millj. kr. viðbótarframlag til Landspítala. Mönnun á Landspítalanum verður einnig styrkt, m.a. viðvera sérfræðilækna en til þess verkefnis renna 250 millj. kr.

Hér er rétt að nefna einnig styrkingu heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni en á fjárlögum þessa árs voru veittar 400 millj. kr. til að styrkja rekstrargrundvöll heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og í frumvarpinu er miðað við að þessi umframstyrkur, ef svo má að orði komast, þessi stuðningur, þessi innspýting, verði varanlegur með föstu framlagi sem því nemur þannig að ekki þurfi að berjast fyrir því sérstaklega frá ári til árs.

Utanspítalaþjónusta verður efld en framlög til sjúkraflutninga aukast um 200 milljónir með sérstöku viðbótarframlagi til að standa straum af samningum um sjúkraflutninga, þar með talið sjúkraflug. Framlög til framkvæmdaáætlunar uppbyggingar hjúkrunarrýma verða aukin um milljónir króna og 100 milljónum verður varið til að fjölga dagdvalarrýmum.

Eins og gefur að skilja, virðulegur forseti, næ ég ekki að ljúka við allan málaflokkinn á fimm mínútum en ég drap hér á helstu þætti og vænti þess að eiga gott samtal við þingmenn um það sem hugur þeirra stendur til í þessum málaflokki.