149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:50]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa yfirferð um frumvarpið. Eins og allir vita er þetta stór og mikill málaflokkur, heilbrigðismálin. Heilbrigðisráðherra er mikill vandi á höndum að vinna sig í gegnum þetta allt, ég geri mér alveg grein fyrir því. Það hafa líka orðið gríðarlegar tækniframfarir, bæði í lyfjum og lækningum. Þetta kallar á aukið fjármagn og er mikill vandi. Lífaldur fólks hækkar vegna þessara framfara og þar fram eftir götunum.

Ég ætla að einskorða mig við spurningu og yfirferð til ráðherra um það sem ég hef áður rætt, áfengis- og vímuefnameðferðir. Ég leitaði eftir fjárframlögum til áfengis- og vímuefnameðferða í frumvarpinu en ég gat ekki fundið aukið fjármagn. Nú hefur verið unnið eftir útrunnum þjónustusamningi við SÁÁ á síðasta ári og dugði framlag hins opinbera fyrir móttöku á rúmlega 1.500 sjúklingum en 2.200 sjúklingar komu í meðferð á árinu. Með söfnunarfé brúuðu menn bilið. Forsvarsmenn SÁÁ segja að það væri hægt að taka á móti 2.700 sjúklingum ef nægilegt fjármagn fengist. Það er staðreynd, hvað sem tautar og raular, að 600 manns eru á biðlista inn á Sjúkrahúsið Vog, hvernig sem það er til komið. Það stefnir í lokun göngudeildar hjá SÁÁ vegna fjárskorts. SÁÁ er með sérmeðferð eða aukadeild í meðferð ópíóíðafíknisjúklinga sem er vanfjármögnuð og langar mig að fá ráðherra til að bregðast við þessu.