149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Við höfum nú áður rætt þessi mál hér í þingsal og það gladdi mig sérstaklega við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra að hv. þingmaður hafði þar orð á því að hann hefði áform um sérstaka umræðu við mig um forvarnir og annars stigs forvarnir eins og hann nefndi þar. Ég held að það sé afar mikilvæg umræða.

Ég vil geta þess að þeir þættir sem hv. þingmaður nefnir hér, áfengis- og vímuefnavarnir, eru í vissum skilningi líka angi geðheilbrigðisþjónustunnar. Þetta spilar allt saman. Undanfarna mánuði höfum við sérstaklega beint sjónum okkar að vanda barna og ungmenna með tvíþættan vanda eins og velferðarnefnd hefur sérstaklega tekið upp og var þá bæði að fjalla um börn og ungmenni en ekki síður fólk sem er komið á fullorðinsár.

Við félagsmálaráðherra höfum ákveðið að taka þetta tiltekna verkefni föstum tökum og höfum sett á stofn starfshóp sem er ætlað að fjalla sérstaklega um úrræði við börn og ungmenni með neysluvanda. Ég veit að hv. þingmaður spyr ekki nákvæmlega um þetta. Ég held að það sé samt mikilvægt að nefna það hér vegna þess að hlutverk hópsins er m.a. að skoða sérstaklega stofnun meðferðarstöðvar fyrir þann hóp barna og ungmenna sem eiga við hvað bráðastan vanda að etja. Staðan er þannig núna að SÁÁ hefur í raun og veru beðist undan því að sinna ólögráða fólki. Við erum núna í millibilsástandi sem við vitum ekki nákvæmlega hvernig endar.

Ég vil líka segja að styrking heilsugæslunnar, fjölgun sérfræðinga innan hennar, stofnun fleiri geðheilsuteyma, skiptir líka hér lykilmáli. Þar erum við að bæta umtalsvert í í þessu frumvarpi. Það skiptir máli og hefur áhrif á þá starfsemi sem hv. þingmaður ber sérstaklega fyrir brjósti.

Ég vænti þess að hann hafi tækifæri á að fylgja spurningu sinni eftir. En þróunin í dag er sú að vímuefnameðferð eigi að sinna meira í nærumhverfi þannig að við þurfum að tala (Forseti hringir.) um þessi mál bæði við SÁÁ og aðra og geðheilbrigðisþjónustuna í heild til að samþætta þá þjónustu sem er fyrir hendi (Forseti hringir.) þannig að hún kallist á við nýjustu strauma og stefnur í þeim efnum.