149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:19]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu og hefur verið í dag frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjárlaga fyrir 2019 og mig langar aðeins að rýna ofan í heilbrigðisþjónustuna.

Það er ánægjulegt að sjá að áætlað er að heildarútgjöld sjúkrahúsþjónustu á næsta ári aukist um 6,8 milljarða á föstu verðlagi, sem svarar til 7,4% hækkunar. Það er vel. Það er sérstaklega ánægjulegt að aðgengi að sérfræðiþjónustu, svo sem sálfræðingum úti um allt land, sé komið í forgang. Það á auðvitað að vera markmiðið að allir landsmenn hafi aðgang að slíkri sérhæfðri þjónustu óháð búsetu og efnahag.

Svo maður nefni sérþjónustu þá leit ég ofan í frumvarpið og sá að verja á 20 milljónum til Bjarkarhlíðar, sem býður upp á meðferð vegna kynferðisafbrota auk forvarna og fræðslu, og til styrkingar neyðarmóttöku á Landspítalanum. Þetta er mjög mikilvægur málaflokkur og seint of miklum fjármunum eða krafti varið í forvarnir og eftirfylgni með brotaþolum kynferðisofbeldis.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún telji að þetta sé nægilegt til forvarna og starfsemi í þeim málaflokki og hvort einhverjir fjármunir séu ætlaðir til slíkrar starfsemi úti á landsbyggðinni. Nú veit ég að hafin er vinna við að opna miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norður- og Austurlandi sem á að vera staðsett á Akureyri og gæti orðið sproti að slíkum miðstöðvum víðar á landsbyggðinni. Eftir því sem mér skilst er þetta samstarfsverkefni nokkurra aðila, eins og lögreglu, sveitarfélaga og Háskólans á Akureyri, og horft til sams konar miðstöðvar og rekin er í Bjarkarhlíð.

Þetta er mikilvæg starfsemi og ég spyr hæstv. ráðherra hvort áhersla verði á þennan málaflokk og hvort horft verði út á land í þeim efnum.