149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:32]
Horfa

Jónína Björk Óskarsdóttir (Flf):

Herra forseti. Þessi mál eru mér mjög hugleikin vegna þess að ég er búin að starfa við öldrunarmál í 30 ár og kom svo að geðfötlunarmálum líka í fjögur ár. Þetta er mér mjög hugleikið vegna þess að geðfatlaðir einstaklingar eða þeir sem eiga við geðraskanir að stríða og eru utan sjúkrahúss eru mjög úrræðalausir. Sveitarfélögin hafa reynt að vinna teymisvinnu með þeim með þeirra geðlækni en ég hef alltaf verið að spyrja mig betur og betur um þetta og alltaf komist að, held ég, betri og betri niðurstöðu og það er dagvistarúrræði, ef það yrði svipað og er fyrir eldri borgara og fyrir heilabilaða. Það væri dagvistarúrræði fyrir einstaklinga með geðraskanir þannig að þeir geti komið, það sé náð í þá og þeir fái þessa föstu rútínu, að þeir snúi ekki sólarhringnum alveg við. Þetta held ég að sé mjög sterkt og gott, þetta er ódýrt úrræði. Við erum að vísu með dagdvalir, það er Dvöl, það er Bjarg og það er Lækur. Þessi úrræði hafa nýst vel en samt má alltaf betur gera vegna þess að í þeim úrræðum sem fyrir eru koma einstaklingar af fúsum og frjálsum vilja en við þurfum oft miklu betra utanumhald fyrir skjólstæðinga sem eru að koma beint af stofnun og eru úrræðalausir, sitja bara heima, horfa í gaupnir sér og jafnvel gráta. Þá fer hugurinn á flug og þá er allra veðra von hjá þessum skjólstæðingum.

En ég vil einnig af því að ég er að tala um forvarnir … (Forseti hringir.) Æ, æ. [Hlátur í þingsal.]