149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[17:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki ég sem byrjaði að tala um önnur mál hérna, það var hv. þingmaður þegar hann fór út í þá orðræðu að benda á hræsnina eða tvískinnunginn í orðum annarra og fór um víðan völl við að tala um önnur mál þannig að mér fannst nauðsynlegt að svara því sem og ég gerði.

Þetta mál snýst vissulega um frelsi og ef við ætlum að fara út í eitthvert flokkamont finnst mér allt í lagi að við tölum bara um frelsi. Þá skulum við bara gera það. En ég tel mig alveg fyllilega vel vopnaðan í þeirri orðræðu og tel mig ekki þurfa samþykki hv. þm. Brynjars Níelssonar fyrir því að vera frjálslyndur enda þótt honum takist að uppnefna annað fólk vinstri ef hann svo vill.

Hv. þingmaður talar hér um sósíalisma. Hvers vegna er sósíalisminn svo hræðilegur? Er það vegna þess að það er áfengi í búðum undir sósíalisma? Nei, það er vegna þess að sósíalisminn, eins og hann birtist í Rússlandi á sínum tíma og í Kína í dag og í Norður-Kóreu, Kúbu og hvaðeina takmarkar frelsi fólks.

Grundvallarmisskilningurinn hjá hv. þingmanni og fleirum er hins vegar sá að ekki sé hægt að vera frjálslyndur og vinstri. Sá grundvallarmisskilningur er til kominn af því að líta alltaf á frelsið í einhverjum fjármálalegum skilningi, það er alltaf spurning um skatta, einkavæðingu, hvort ríkið selji eitthvað eða ekki. En þegar kemur að einstaklingsfrelsinu eins og, fjárinn hafi það, virðulegi forseti, hvað við megum heita skiptir allt í einu það frelsi engu máli.

Ég er ekkert að segja að hv. þingmaður sé ófrjálslyndur í öllum þessum hinum málefnum sem hann nefndi, ég bendi bara á að ef hann vill tala um tvískinnung skal hann passa á hverju hann heldur og úr hvaða húsi hann kastar.