149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[17:29]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mönnum hefur orðið svolítið tíðrætt um það, og hv. þm. Þorsteini Víglundssyni líka, að við eigum að treysta fólki. Ég er alveg á því að almennt eigi að treysta fólki. En ég vil aðallega treysta því fyrir sjálfu sér, ekki fyrir hönd annarra. Við vitum það alveg að aðrir ákveða nöfnin fyrir okkur en við sjálf, þó að við getum breytt þeim síðar.

Fyrst menn tala um traust og finnst lítil hætta í þessu vil ég geta þess að ég fékk send frá góðum manni síðustu nöfnin sem mannanafnanefnd hafnaði. Það eru nöfnin: Satan, Danske, Clinton og síðast en ekki síst Pírati. Þetta voru nöfnin sem verið var að hafna, bara núna. Við vitum alveg hvert þetta er að fara. Við vitum alveg hvað getur gerst. Við vitum alveg vandamálin sem menn munu glíma við. Þegar menn hætta að glíma við mannanafnanefnd glíma þeir við barnaverndaryfirvöld. Þá byrjar stríðið þar. Við færum stríðið aðeins til.

Við erum ekki að leysa neinn vanda með þessu. Mér finnst þetta ekkert hafa með frelsi að gera. Við erum að hlaupa eftir einhverjum dyntum og reyna að kalla okkur frjálslynd á þeirri vegferð. Það er það sem mér sýnist verið að gera.

Og ef við hefðum raunverulegan áhuga á frjálslyndi snerist það um það að ég fengi að ráða svolítið meira yfir sjálfum mér, ekki að fá að ráða meira yfir öðrum eins og þarna er verið að gera. Það er verið að gefa mönnum meira frelsi til að ráða yfir öðrum. En þegar kemur að því að við fáum að ráða yfir okkur sjálfum kemur hik á svo marga hér í þessum sal. Við ættum að huga að því.