149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

lögreglunám.

[10:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og þennan áhuga á háskólastiginu. Við höfum aukið verulega fjármuni til háskólastigsins, um 5% á milli ára. Við höfum sérstaklega einblínt á nýliðun kennara, á hjúkrunarfræðinámið og auðlindafræði í Háskólanum á Akureyri. Ég tel að þessar áherslur skili sér mjög vel inn í það hvernig fjárveitingavaldið hugsar þessi mál. Ég tel að Háskólinn á Akureyri hafi staðið sig gríðarlega vel í þeirri nálgun sem hann hefur tamið sér varðandi það að efla menntun í landinu og hvernig hann hefur tekið á sínum málum.

Varðandi lögreglunámið tel ég að nokkuð vel sé staðið að því. En ég tek auðvitað eftir því, eins og hv. þingmaður, að eftirspurnin eftir því er umtalsverð og ekki allir sem komast að. Þetta er eitthvað sem háskólaráðið verður að fara betur yfir. Hins vegar er það svo að fjármunir löggjafans og drögin að frumvarpinu eru til þess fallin að hugsanlega verður hægt að koma til móts við þessa auknu eftirspurn.