149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

breytingar á LÍN.

[10:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Þetta var, með fullri virðingu, langt svar að því að komast að svarleysi. Hæstv. ráðherra fullvissaði mig í þessum ræðustól fyrir sex eða sjö mánuðum um að það yrði ekkert aðgerðaleysi af hennar hálfu varðandi stúdenta. Síðan er hægt að koma hingað og tala og tala og þykjast gera meira en nokkurn tíma hefur verið gert. Hæstv. sjávarútvegsráðherra gerði líka sína hluti þegar hann var í stóli menntamálaráðherra og ýtti þessum málum áfram, núverandi forsætisráðherra og Illugi Gunnarsson. Það eru nægileg gögn til staðar til að koma til móts við stúdenta og það þýðir ekki að koma hingað upp og skauta yfir hlutina.

Þetta er einföld spurning: Þurfa stúdentar að bíða eftir því að fá lausn sinna mála þar til veturinn 2020–2021 rennur í garð? Við vitum að frumvarp sem er lagt fram á næsta hausti fer ekki í gegn fyrr en einhvern tíma síðar um veturinn. (Forseti hringir.) Ráðherra er hér að segja: Stúdentar þurfa að bíða af því að kannski er það þannig að ráðherra hefur ekki fullan stuðning ríkisstjórnarflokkanna til að keyra þessi mál í gegn. Ég hvet ráðherra til dáða í þessu máli og stúdentar þurfa svör, ekki einhverja skreytni.