149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

framkvæmdir við Reykjanesbraut.

[11:01]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrirspurnina. Það er rétt sem hann segir, við ræddum þetta akkúrat, fyrir kannski ekki ári en fyrr á þessu kjörtímabili, um nákvæmlega hvaða lausnir væru mögulegar á að leysa umferðarhnúta og auka umferðarflæðið. Og ekki síst öryggið á Reykjanesbrautinni sem er, alveg eins og hv. þingmaður nefnir, einn allra umferðarmesti vegur landsins og því miður allt of tíð slys og jafnvel alvarleg.

Nú er samgönguáætlun vonandi að koma inn í þing til umræðu í næstu viku og þá getum við auðvitað farið betur ofan í þetta. En af því að hv. þingmaður spyr hvaða lausnir séu hefur Vegagerðin verið að hanna og allar slíkar lausnir eru tilbúnar og það er þá spurningin um forgangsröðunina. Ég vil í sjálfu sér ekki segja hvernig þetta kemur til með að líta út fyrr en við erum búin að kynna samgönguáætlun þannig að allir fái tækifæri að standa og sitja við sama borð hvað það varðar.

Ég hef sagt að það sé augljóst að þegar slys á landinu kosta okkur kannski 40–60 milljarða á ári í umferðinni, í samgöngunum, leggjum við mesta áherslu á umferðaröryggi í nýrri samgönguáætlun. Það er ekkert leyndarmál og hluti af því að leysa það er einmitt að takast á við þá vegi þar sem slysin eru tíðust og alvarlegust og umferðarþunginn hvað mestur. Þetta mun sem sagt skýrast betur í næstu viku þegar við getum vonandi rætt samgönguáætlunina í þinginu.

Varðandi ofanbyggðaveg sem hv. þingmaður benti einmitt á að hefði hugsanlega getað leyst þarna einhverjar leiðir fram hjá, svona þeim þéttustu, er það skipulagsmál sveitarfélaganna. Ég held að menn þurfi svolítið að horfa til langs tíma, næstu 30–40 ára, og sjá fyrir sér hvernig umferðin í gegnum og fram hjá höfuðborgarsvæðinu á að vera. Það eiga ekki allir leið inn í miðbæ Reykjavíkur og þar af leiðandi þurfa að vera til einhverjar leiðir til að komast þar fram hjá.